Ráðstefna um íslenskt þjóðfélag - kallað eftir erindum | Háskólinn á Hólum

Ráðstefna um íslenskt þjóðfélag - kallað eftir erindum

Norðan við hrun – sunnan við siðbót?
Kallað er eftir tillögum að málstofum og ágripum að erindum fyrir 8. ráðstefnuna um íslenska þjóðfélagið, sem haldin verður í Háskólanum á Hólum í Hjaltadal dagana 15.-16. maí 2014. Fræðafólk úr öllum greinum hug- og félagsvísinda er hvatt til að senda ágrip að erindum byggðum á eigin rannsóknum. Miðað er við 20 mínútna erindi, eitt af hálfu hvers flytjanda og 10 mínútna umræður.
Yfirskrift ráðstefnunnar er ætlað að vekja athygli fremur en binda hug og hendur þátttakenda, því er hún bæði tímanleg og tímalaus. Hún vísar til vorra tíma eftir efnahagshrun sem varð með ólíkum hætti í norðri og suðri, hún vísar til þeirrar orðræðu um siðbót í samfélaginu sem fylgdi í kjölfar hrunsins. Hún vísar einnig til Hóla í Hjaltadal, í sveitinni sem einu sinni var Norðan við stríð í orðum Indriða G. Þorsteinssonar og staðarins, sem var sunnan við siðbót í nánd sinni við hina suðrænu kaþólsku.
Höfundar eru hvattir til að þróa erindi sín í birtingarhæfar greinar í íslenskum fræðitímaritum að ráðstefnu lokinni. Því eru málstofustjórar beðnir að huga að útgáfumöguleikum efnis í málstofu sinni og með hvaða hætti málstofan getur orðið til að efla fræðilega orðræðu á viðkomandi sviði hérlendis.
Við skipulag ráðstefnunnar verður lögð áhersla á að hún er tækifæri fræðasamfélagsins um íslenska þjóðfélagið til að gefa og þiggja þekkingu, hugmyndir, áskoranir og aðferðir. En fyrst og síðast; að fagna saman frjóum rannsóknum um íslenska þjóðfélagið.
Tillögur að málstofum óskast eigi síðar en 3. febrúar 2014. Ágrip af erindum (hámark 250 orð) óskast eigi síðar en 3. mars 2014.
Nánari upplýsingar og viðtöku tillagna og ágripa veitir Guðrún Helgadóttir gudr@holar.is
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is