Rannsókn um viðhorf landsmanna og ferðamanna til torfhúsa | Háskólinn á Hólum

Rannsókn um viðhorf landsmanna og ferðamanna til torfhúsa

Hvers vegna rannsókn um viðhorf til íslenskra torfhúsa?
 
Ferðamáladeild Háskólans á Hólum býður m.a. upp á nám um menningararf og hvernig megi nýta hann í ferðaþjónustu. Fremur fátt er vitað um viðhorf Íslendinga almennt til menningarfs og alls ekkert um hug þjóðarinnar til torfhúsa, sem eru þó sannarlega nýtt sem aðdráttarafl fyrir ferðamenn á nokkrum stöðum. Ferðamáladeild HH hefur valið torfhús til rannsóknar um viðhorf til menningarafs vegna þess að þau varpa ljósi á sérstöðu íslensks byggingararfs og erlendir ferðamenn sýna þeim mikinn áhuga.
 
Ferðamennska hefur vaxandi áhrif á efnahag, menningu, náttúru og ímynd landsins, sem og á sjónarmið fólks til verndunar og nýtingar menningar- og náttúruminja. Önnur ástæða fyrir rannsókn af þessu tagi er að ókunnur fjöldi standandi og hálfstandandi torfhúsa er um allt land og þriðja ástæðan er sú að viðhaldsþekking torfhúsa er hverfandi. Við þessu þarf að bregðast svo hægt verði að gera ráðstafanir, hvort sem er til skráninga, verndunar og nytja eða utanumhalds til framtíðar litið. 
 
Markmiðið með rannsókn um viðhorf landsmanna og ferðamanna til þessa menningararfs er fyrst og fremst að leiða í ljós hvaða sess torfhús hafa í fræðslu, minjavernd og í ferðaþjón­ustu, og hver vilji Íslendinga er til að vernda þau og nýta.
 
Í samstarfi  með Ferðamáladeild HH í rannsókninni eru Minjastofnun Íslands, Þjóðminjasafn Íslands, Byggðasafn Skagfirðinga og Rannsóknamiðstöð ferðamála. Lögð er áhersla á að samstarfið nýtist öllum rannsóknaraðilum þannig að hægt verð að byggja á því inn í framtíðina og þessi grein menningararfs okkar njóti þess.
 
Sigríður Sigurðardóttir
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is