Reiðsýning brautskráningarnema | Háskólinn á Hólum

Reiðsýning brautskráningarnema

Hin árlega reiðsýning Hólanema fór fram í mikilli veðurblíðu á laugardaginn, 20. maí. Þessi sýning hefur skapað sér sess sem hápunktur lokadagskrár hjá BS-nemum í reiðmennsku og reiðkennslu, sem nú hafa lokið öllum sínum prófum.

Nemendur sýndu í verki margt af því sem þeir hafa lært í reiðmennsku í þriggja ára námi sínu hér við skólann. Mette Mannseth, yfirreiðkennari skólans, lýsti því sem fram fór jafnóðum fyrir áhorfendum sem voru fjölmargir.

Í lok sýningar færði Siguroddur Pétursson, varaformaður FT, nemana í hina bláu einkennisjakka, með rauða kraganum. Hann veitti auk þess viðurkenningu fyrir besta árangur á lokaprófi í reiðmennsku og var það að þessu sinni Sarah Høegh sem vann til þessa. Hún hlaut einnig Morgunblaðshnakkinn, sem veittur er fyrir besta heildarárangur í öllum reiðmennskugreinum í BS-námi í reiðmennsku og reiðkennslu.

Sýningin var haldin á reiðvelli Hólaskóla og var felld inn í dagskrá hestaíþróttamóts UMSS og Skagfirðings, sem haldið var heima á Hólum um helgina.

Að sýningunni lokinni riðu hinir bláklæddu knapar til hefðbundinnar myndatöku við Hóladómkirku og að því búnu var þeim og fjölskyldum þeirra boðið til kaffisamsætis á Undir Byrðunni.

Um leið og við óskum þessum glæsilega hópi til hamingju með árangurinn, minnum við á að hver vegur að heiman er vegurinn heim - að Hólum.

Myndirnar tók Elisabeth Jansen.

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is