Samstarf Íbúðalánasjóðs og íslenskra háskóla

Íbúðalánasjóður hyggst úthluta styrkjum til meistara- og doktorsnema sem vilja stunda rannsóknir á húsnæðismálum, við hvern hinna sjö íslensku háskóla sem er. Rektorar háskólanna, ráðherra húsnæðismála og forstjóri Íbúðalánasjóðs undirrituðu viljayfirlýsingu þessa efnis fyrr í vikunni.

Af þessu tilefni sendi Íbúðalánasjóður frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu:

 Íbúðalánasjóður styrkir háskólanema um land allt sem rannsaka vilja húsnæðismál: 
„Full þörf á að rannsaka húsnæðismarkaðinn“ 
  • Allt að 15 meistara- og doktorsnemar við alla sjö háskólana á Íslandi fá að hámarki 1 millj. kr. í styrk á ári
  • Húsnæðisskortur og hátt verð húsnæðis kallar á að nýrra leiða sé leitað 
  • „Vonandi mun samstarfið við Íbúðalánasjóð verða til þess að ný þekking skili sér fyrr í formi lausna sem gagnast munu fólki á húsnæðismarkaði,“ segir rektor LHÍ 
Íbúðalánasjóður hyggst úthluta styrkjum til meistara- og doktorsnema sem vilja stunda rannsóknir á húsnæðismálum við alla sjö háskólana á Íslandi. Rektorar háskólanna, ráðherra húsnæðismála og forstjóri Íbúðalánasjóðs hafa undirritað viljayfirlýsingu þess efnis. 
 
Verulegur vandi hefur skapast á húsnæðismarkaðnum hér á landi síðustu misseri og eitt af því sem talið er geta komið í veg fyrir að svipað neyðarástand skapist að nýju er efling rannsókna tengdum húsnæðismálum.  
 
Töluverðum upphæðum verður varið til verkefnisins. Veittir verða allt að 15 styrkir á ári og getur hver og einn numið að hámarki 1 milljón kr. Með veitingu styrkjanna er vonast til að fjölga verkefnum og rannsóknum á sviði húsnæðismála sem geta eflt íslenskan húsnæðismarkað og stuðlað að auknu jafnvægi á honum.  
 
Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra: „Það er full þörf á að rannsaka húsnæðismarkaðinn. Ég bind vonir við að styrkirnir nýtist nemendum allra íslensku háskólanna vel og að þeir verði duglegir að sækja um þá. Með auknu samstarfi á milli Íbúðalánasjóðs og fræðasamfélagsins verður vonandi hægt að stuðla að því að sem flestir íbúar landsins geti búið við húsnæðisöryggi og að meira jafnvægi komist á húsnæðismarkaðinn. Við þurfum á því að halda sem fyrst.“ 
 
Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor Listaháskóla Íslands: „Ég tel mjög mikilvægt skref að styrkja betur við rannsóknir á húsnæðismarkaðnum. Húsnæðisskorturinn og hátt verð húsnæðis kallar á að við leitum hagkvæmari leiða til að reisa húsnæði. Loftslagsbreytingar kalla á að við hugum að sjálfbærni og breyttar kröfur nýrra kynslóða, sem haga lífi sínu á annan hátt en við sem eldri erum, kalla ef til vill á að við horfum á húsnæði með aðeins öðrum augum en hingað til. Starfsfólk og nemendur við hönnunar- og arkitektadeild LHÍ eru að kljást við allar þessar spurningar og vonandi mun samstarfið við Íbúðalánasjóð verða til þess að ný þekking skili sér fyrr í formi lausna sem gagnast munu fólki á húsnæðismarkaði.” 
 

Yfirlýsinguna í heild má nálgast hér.

Undirritun viljayfirlýsingar

 

 

Erna Björk Örnólfsdóttir, rektor Háskólans á Hólum, Auður Magnúsdóttir, deildarforseti Landbúnaðarháskóla Íslands, Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, Hermann Jónasson, forstjóri Íbúðalánasjóðs, Ásmundur Einar Daðason, ráðherra húsnæðismála, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri tengsla hjá Háskólanum í Reykjavík, Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor Listaháskóla Íslands og Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst. 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is