Skeiðhestarnir teknir til kostanna og mjólkursýra mæld í blóði | Háskólinn á Hólum

Skeiðhestarnir teknir til kostanna og mjólkursýra mæld í blóði

Í morgun voru nemendur á þriðja ári í Hestafræðideild að æfa sig að taka skeiðhesta Hólaskóla til kostanna. Blóðsýni voru tekin úr hestunum til að mæla mjólkursýru og fá þannig ákveðið mat á líkamlega álagið á skeiðinu. Hestarnir voru einnig með púlsmæla og GPS var notað til að mæla hraðann á skeiðinu. Nemendur kynnast þessum mælitækjum við þjálfun á skeiðhestunum meðal annars til að fá hlutlægt mat á líkamlega álagið. 
 
Það er þekkt samkvæmt rannsóknum að á afkastamiklu skeiði nota íslenskir hestar umtalsverð loftfirrð efnaskipti og þá hleðst upp mjólkursýra í blóði. Við mælinguna nægir að taka lítið blóðsýni (um 2 ml) úr hálsæð og blóðdropi er settur á mælistrimil sem er stungið í lítinn mæli sem telur niður 15 sekúndur og gefur upp mjólkursýrumagnið. Mjólkursýran var mæld eftir seinni sprett af tveimur hjá hverjum hesti og kom í ljós að magnið var mjög mismunandi eftir hestum og knöpum, en magnið verður ekki umtalsvert nema hesturinn skeiði af krafti.
 
Það var Höskuldur Jensson dýralæknir sem tók blóðsýnin og Guðrún Stefánsdóttir kennari var honum og nemendum til aðstoðar við mjólkursýrumælingarnar. Þorsteinn Björnsson reiðkennari leiðbeindi nemendum við skeiðreiðina.
 
Myndirnar tók Guðrún Jóhanna Stefánsdóttir.
 
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is