Skilasýning á laugardaginn | Háskólinn á Hólum

Skilasýning á laugardaginn

Í þessari viku standa yfir próf, hjá flestum nemendum í Hestafræðideild og Ferðamáladeild skólans, enda komið að lokum fyrri stuttannar haustið 2016.

Tamninga- og þjálfunarnámskeiðum á 2. námsári í reiðmennsku og reiðkennslu lýkur með svonefndum skilasýningum, sem eru haldnar að loknum prófum. Nú er komið að einni slíkri, á laugardaginn - fyrsta vetrardag. Það er rétt að taka fram að „skilasýning“ felur ekki endilega í sér að verið sé að skila hrossunum til eigenda sinna, en merkir hins vegar ávallt að nemandinn sé að skila af sér tilteknu verkefni - að tilteknum áfanga sé náð.

Á laugardaginn munu nemendur annars vegar sýna hross sem þeir hafa verið að frumtemja (námskeiðið FRT2010 sem lýkur nú í vikunni) og hins vegar þjálfunarhross (úr námskeiðinu ÞJÁ3305). Flest frumtamningatrippanna munu verða hér áfram fram undir jól, og hljóta grunnþjálfun (námskeiðið GRÞ3305). En hrossum sem hafa verið í þjálfun verður skipt út, fyrir önnur sem verða þjálfuð á seinni stuttönn.

Sýningin hefst kl. 13, í Þráarhöllinni. Eins og ævinlega eru allir hjartanlega velkomnir. Veðurspáin er okkur hliðholl og við vonumst til að sjá sem flesta áhugamenn um tamningar og reiðmennsku hér heima á Hólum á laugardaginn.

Myndina tók Mette Mannseth, af þeim Klöru Sveinbjörnsdóttur og  Dagrúnu frá Víðidalstungu II, að leysa traustverkefni í frumtamningaprófi.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is