Smáríkið Kíríbatí tapaði þjóðarauðnum á íslenska bankahruninu | Háskólinn á Hólum

Smáríkið Kíríbatí tapaði þjóðarauðnum á íslenska bankahruninu

Þann 16 og 17. maí síðastliðinn var 13. ráðstefnan um íslenska þjóðfélagið haldin að Hólum í Hjaltadal, á vegum Ferðamáladeildar Háskólans á Hólum. Yfirskrift ráðstefnunnar að þessu sinni var Er þjóðarbúið sjálfbært og þjóðarheimilið blessað? sem skírskotaði til greiningar á stöðu þjóðfélagsins nú áratug eftir hrun. 
 
Fyrri lykilfyrirlesari ráðstefnunnar var Svein Harald Øygard, norskur hagfræðingur sem gegndi stöðu seðlabankastjóra Íslands frá febrúar til október 2009. Yfirskrift erindis hans var „Frá vesæld til velsældar - Er þjóðarbúið sjálfbært og þjóðarheimilið blessað?“ Fór hann þar m.a. yfir stöðu þjóðarbúsins í dag í samanburði við mánuðina á eftir hruni og benti á ótrúlegan viðsnúning á þessum áratug sem liðinn er. Þegar öll kurl væru komin til grafar hefði þjóðarbúið í raun haft ávinning af hruninu og væri í betri stöðu nú en fyrir hrun. Einstaklingar hefðu þó tapað miklu en tapið hefði orðið sýnu mest hjá litlu smáríki í Kyrrahafi, Kíríbatí sem tapaði þjóðarauði sínum við íslenska hrunið. Svein Harald kom inn á að enn væru ekki öll kurl komin til grafar varðandi hrunið þó liðinn væri áratugur og að yfir stæðu réttarhöld í París, með aðkomu Evu Joly, vegna útlána Landsbankans gamla í Luxenborg til franskra þegna.  Á næstu dögum kemur út í Noregi bók Sveins Haralds, På finanskrisens slagmark sem fjallar um alþjóðlegu fjármálakreppuna fyrir áratug, bankahrunið á Íslandi og vinnu hans sem seðlabankastjóra í kjölfar falls íslensku bankanna. Bókin hefur verið þýdd á íslensku og verður gefin út í október í ár. Sú útgáfa er að nokkru aðlöguð íslenskum markaði og þar fjallar Svein Harald einnig um reynslu sína af landi og þjóð. 
 
Lykilerindi seinni daginn flutti Sólveig Anna Bóasdóttir prófessor í guðfræðilegri siðfræði við Háskóla Íslands. Erindi hennar bar heitið Trú og loftslagsbreytingar; framlag kristins fólks til umræðunnar. Kjarni hennar erindis var staða þjóðarinnar við loftslagsbreytingar og umhverfisánauð. Vitnaði Sólveig Anna í guðfræðileg rit sem gera ráð fyrir að maðurinn sé hluti af náttúrunni en ekki yfir hana hafinn, sem er viðhorf sem verið hefur ríkjandi eftir að vísindahyggjan kom fram á sjónarsviðið snemma á nítjándu öld. Hún benti sérstaklega á að þjóðrbúið gæti aldrei orðið blessað þegar græðgin ræður ríkjum, þegar yfirgangur okkar gagnvart öðrum lífverum og náttúrunni allri væri að ganga að grunnlagi okkar dauðu. Þeir kraftar sem liggja þarna að baki eru gróðahyggja sem er órjúfanlegur kjarni kapitalisma.  
Ráðstefnan um íslenska þjóðfélagið er samstarf fjögurra háskóla í landinu og haldin annað hvert ár. Næst, eða 2021, mun Háskólasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum halda utan um hana og verður hún því haldin á Ísafirði. Á ráðstefnunni leggja fræðimenn fjölmargra hug- og félagsvísinda fram rannsóknir sínar og úr verður skapandi umræða manna á meðal. Í þetta sinn voru málstofurnar 11 talsins og fluttu þar erindi 62 fræðimenn frá háskólum og rannsóknastofnunum á landinu. Þar voru málstofur um efnahagsmál, byggðamál, ferðamál, menntamál og vinnumarkaðinn. Sértækari málstofur voru um sumardvöl barna í sveit; þjóðmenningu og innflytjendamál; jafnrétti og kyn; rannsóknir og birtingar og samfélagslegar áskoranir. Nýjung var sérstök málstofa um náttúruvísindi. 
 
Erindi þóttu takast með afbrigðum vel og ráðstefnugestir notfærðu sér umgjörð staðarins til gönguferða og fróðleiks um sögu Hóla, ásamt því að njóta veitinga hjá Ferðaþjónustunni á Hólum og hjá hinu margrómaða Bjórsetri Íslands. Virtust ráðstefnugestir almennt ánægðir með hvernig til tókst og dvölina á Hólum og þakkar Ferðamáladeild öllum þeim sem að henni komu og gerðu hana eins vel úr garði og raun bar vitni.
 
Anna Guðrún Þórhallsdóttir o.fl.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is