Starfsfólk Ferðamáladeildar kynnir rannsóknir sínar | Háskólinn á Hólum

Starfsfólk Ferðamáladeildar kynnir rannsóknir sínar

Ein af skyldum akademískra starfsmanna háskóla er að kynna rannsóknir sínar, niðurstöður þeirra og hugsanleg áhrif. Kennarar í Ferðamáladeild stunda margs konar rannsóknir og hafa þetta haustið tekið þátt í ýmsum ráðstefnum og málþingum, með það að markmiði að greina frá rannsóknarverkefnum sínum.  
 
Laufey Haraldsdóttir, Guðrún Helgadóttir og Amy Savener tóku þátt í North Atlantic Forum ráðstefnunni í Bø í Noregi, þar sem Laufey kynnti niðurstöður rannsókna á viðhorfi ferðaþjónustuaðila gagnvart virkjunarhugmyndum; Amy kynnti niðurstöður rannsóknar sinnar um áhrif ferðamennsku á frumbyggja á Bresku Jómfrúareyjum í Karíbahafi og Guðrún ræddi þær áskoranir sem fræðafólk stendur frammi fyrir í dag af hálfu stjórnvalda og hagsmunaaðila, sem leggja pólitískt mat á hvaða rannsóknir eigi að stunda og hvaða rannsóknarniðurstöður megi birta.
 
Þá tók Ingibjörg Sigurðardóttir þátt í 26. norrænu ráðstefnunni um rannsóknir á sviði ferðaþjónustu og gestamóttöku, sem haldin var í Falun í Svíþjóð á dögunum. Þar kynnti hún niðurstöður rannsókna á Landsmóti hestamanna á Hólum 2016.
 
Á alþjóðlegu málþingi í Reykjavík, um mismunandi leiðir til að takast á við mikinn vöxt í ferðamennsku,  „Tackling Overtourism: Local Responses“, voru þau Jessica Aquino, Kjartan Bollason og Amy Savener með innlegg. Markmið þessa málþingsins var að auka þekkingu og skilning á hugtakinu „overtourism“, hvernig mætti fyrirbyggja það ástand og kanna leiðir til inngripa sem tryggja sjálfbæra þróun ferðamennsku þar sem fjöldi ferðamanna hefur orðið of mikill. Málþingið er hluti af alþjóðlegri ráðstefnuröð um ábyrga ferðamennsku á áfangastöðum (e. International Conference on Responsible Tourism in Destinations). Á málþinginu kynnti Jessica niðurstöður rannsókna sem framkvæmdar hafa verið við sellátur á Vatnsnesi og hugmyndir til framtíðar um stjórnun á umferð ferðamanna um svæðið. Kjartan kynnti fyrstu niðurstöður rannsóknar sinnar á því hvernig hönnun mannvirkja í takt við náttúru getur orðið liður í að stjórna umferð ferðamanna á áfangastað og Amy ræddi upplifun ferðamanna af Íslandi sem áfangastað.
 
Í síðustu viku var haldin kennsluþróunarráðstefna í Háskóla Íslands þar sem þau Jessica Aquino, Amy Savener og Þórir Erlingsson voru mætt til leiks. Jessica kynnti tilviksrannsókn þar sem hún beitir aðferðum Whetten (2007) um nemendamiðaða kennslu í námskeiðum sem hún sjálf hefur umsjón með. Amy og Þórir ræddu það „að búa til samfélag úr fjarlægð“ þar sem þau veltu fyrir sér ögrunum og tækifærum í því að búa til rafrænt samfélag nemenda og kennara í fjarnámi.
 
Á döfinni er svo Þjóðarspegill í Háskóla Íslands, þar sem Anna Vilborg Einarsdóttir mun kynna fyrstu niðurstöður rannsóknar sinnar um hlutverk leiðsögumanna í ferðaþjónustu. Enn fremur ráðstefna í Guatemala þar sem Guðrún Helgadóttir mun segja frá Bologna ferlinu og fjalla um gæði gæði háskólastarfs. 
 
20. október 2017. Laufey Haraldsdóttir.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is