Styrkir til rannsókna á burðargetu íslenskra reiðhrossa | Háskólinn á Hólum

Styrkir til rannsókna á burðargetu íslenskra reiðhrossa

Háskólinn á Hólum, í samvinnu við sænska landbúnaðarháskólann (SLU) í Uppsala í Svíþjóð, hefur nýlega (2018-2019) hlotið veglega styrki til að rannsaka nánar burðargetu íslenskra reiðhrossa. Samtals hefur verkefnið fengið 8 milljónir íslenskra króna, þar af 5 milljónir frá Stofnverndarsjóði íslenska hestakynsins og 3 milljónir frá Framleiðnisjóði landbúnaðarins.
 
Vísindamenn frá Háskólanum á Hólum og SLU hafa áður (2017) birt niðurstöður rannsókna á áhrifum þyngdar knapa á íslenska hesta á tölti, annars vegar áhrif á lífeðlisfræðilega þætti  og hins vegar áhrif á hreyfingar á tölti. Rannsóknirnar gáfu mikilvægar upplýsingar um viðfangsefnið en jafnframt ástæðu til að rannsaka þetta frekar. Auk þess hefur umræðan um að íslenski hesturinn beri stóra knapa fengið aukna athygli, umræðu og gagnrýni, hin síðari ár. Ástæðan er að hann er fremur smár sem reiðhestur, að meðaltali um 140 cm á herðakamb og 350 kg, samanborið við mörg önnur reiðhestakyn sem eru á milli 155-170 cm á hæð á herðakamb og vega um 450-550 kg. Þess vegna er mikilvægt að rannsaka vísindalega hversu erfitt það er fyrir íslenska hestinn að bera misþunga knapa.
 
Markmið rannsóknanna er að þróa þjálfunarpróf sem getur sagt til um burðargetu íslenskra hrossa í almennri notkun. Einnig að skoða hvort er samband á milli sköpulags og vöðvasamsetningar t.d. gerða vöðvaþráða og burðargetu íslenskra hrossa. Ennfremur stendur til að rannsaka hvort megi auka burðargetu íslenskra hesta með þjálfun og hvernig þjálfunaraferðir henta til þess.
 
Nú þegar hefur verið auglýst eftir doktorsnema í verkefnið, sjá nánar hér á vef SLU.
 
Verkefnisstjórar eru dr. Anna Jansson SLU og dr. Guðrún J. Stefánsdóttir Háskólanum á Hólum.
 
Bent er á viðtal við Guðrúnu á vef Horses of Iceland. Það viðtal má nálgast á íslensku, ensku og þýsku.
 
 
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is