Styrkur úr Byggðarannsóknasjóði | Háskólinn á Hólum

Styrkur úr Byggðarannsóknasjóði

Ferðamáladeild Háskólans á Hólum hefur hlotið 3,5 millj. kr. styrk úr Byggðarannsóknasjóði Byggðastofnunar 2019, til rannsóknar um nytja- og minjagildi torfhúsa á Íslandi.
 
Markmið rannsóknarinnar er að kanna viðhorf landsmanna og ferðamanna til þessa menningararfs þjóðarinnar. Henni er ætlað að leiða í ljós hvaða sess torfhús hafa í fræðslu, í minjavernd og í ferðaþjónustu, sem og hver vilji Íslendinga er til að vernda og nýta torfhúsin. Rannsóknin á einnig að leiða í ljós hvaða viðhorf eru ríkjandi gagnvart verndun byggingahandverks torfhúsa. 
 
Tilgangur rannsóknarinnar er þríþættur: Að
1) kanna viðhorf til torfhúsa
2) fá fram skoðun ferðamanna á gildi torfhúsarfs Íslendinga 
3) kanna viðhorf til gildis handverksins á bak við torfhúsin, gildis húsanna og þar með verndunar þeirra 
 
Fyrsti áfangi rannsóknarinnar hefst í sumar. Samstarfsaðilar með Ferðamáladeildinni í sumar verða Rannsóknamiðstöð ferðamála, Þjóðminjasafn Íslands og Byggðasafn Skagfirðinga. Fleiri munu bætast í hóp rannsakenda í framhaldinu. Tveir af starfsmönnum Ferðamáladeildar, þær Sigríður Sigurðardóttir aðjúnkt og Laufey Haraldsdóttir deildarstjóri, hafa umsjón með rannsókninni fyrir hönd skólans.
 
Sigríður Sigurðardóttir
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is