Styrkur úr Innviðasjóði Rannís

Innviðasjóður Rannís hefur úthlutað 8 millj. króna styrk til Fiskeldis- of fiskalíffræðideildar, til þess að setja upp Miðstöð fyrir mælingar á efnaskiptahraða í fiskum (Centre for Fish Energetics). Styrknum verður varið til þess að kaupa tæki og byggja upp aðstöðu til mælinga á efnaskiptahraða fiska. Aðalumsækjandi var Helgi Thorarensen, en meðumsækjendur voru Stefán Óli Steingrímsson, Bjarni K. Kristjánsson og Camille Leblanc frá Hólum ásamt Guðbjörgu Ástu Ólafsdóttur frá Háskólasetri Vestfjarða.

Aðstaðan mun opna nýja möguleika á rannsóknum á sviði lífeðlisfræði, vistfræði, atferlisfræði og fiskeldis. Keypt verða tæki til mælinga á efnaskiptahraða fiska allt frá hrognastigi til kynþroska fiska. Með þessum nýja búnaði verður hægt að mæla efnaskiptahraða í einstökum hrognum, seiðum og fullvöxnum fiskum. Einnig verður búnaður til þess að mæla vöxt, fóðurtöku og efnaskiptahraða fiska í kerjum og fá þannig fullkomna mynd af orkubúskap þeirra. Þegar er til búnaður til þess að mæla sundgetu fiska. Gert er ráð fyrir að aðstaðan verði komin í fulla notkun næsta haust. 

Helgi Thorarensen.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is