Torfhleðslunámskeið

Fornverkaskólinn: Námskeið í hleðslu torfveggja og smíði húsgrindar.

Kennari: Helgi Sigurðsson hjá Fornverki ehf. 

Staður og tímasetning: Tyrfingsstaðir í Skagafirði, 26.-28. maí 2017.

Verð: 50.000, innifalið: efni, verkfærði og léttur hádegisverður. 

Viðfangsefni: Torfhleðsla. Torftaka, mismunandi gerðir torfskurðar og -stungu og torfþurrkun. Ef námskeiðið gengur vel verður mögulega farið í smíði einfaldrar húsgrindar í lok námskeiðs. 

Tímafjöldi: 24

Fjöldi þátttakenda: Lágmark 6

Hvert námsskeið er stakt en möguleg framhaldsnámskeið hjá Fornverkaskólanum eru: Rekaviðarnámskeið, trégrindarsmíði, gluggasmíði og grjóthleðslunámskeið.

Upplýsingar gefur Bryndís Zoëga í bryndisz@skagafjordur.is eða í síma 860 2926. 

Þeim er sækja námskeið Fornverkaskólans er bent á að huga að eigin tryggingum þar sem Fornverkaskólinn er ekki ábyrgur gagnvart slysum.

Öll verkfæri eru á staðnum
Hafið með góðan/hlýjan hlífðarfatnað

Námskeiðslýsing 
Á námskeiðinu verða hlaðið úr torfi bæði streng og klömbruhnausum. Kennd verða torfstunga og torfskurður og það efni sem stungið er á námskeiðinu verður notað í hleðsluna. Ef vinna við torfveggi gengur hratt fyrir sig verður mögulega farið í smíði á einfaldri húsgrind og ef tími gefst til tyrft á þak. Viðfangsefni námskeiðsins er viðgerð á "hesthúsinu suður og niður", hesthúsi sem stendur syðst og neðst í gamla túninu á Tyrfingsstöðum.  
Helstu verkfæri / kennslutæki 
Nemendum verða útveguð verkfæri. Þeir sem þess óska geta þó notað eigin verkfæri. Þessi verkfæri verða notuð: Stunguskófla, malarskófla, torfljár, hnallur, sög, sleggja, hamar, o.fl.

Helstu markmið námskeiðanna eru að nemandi
- þjálfist í torfhleðslu og skurði - tileinki sér góðar vinnureglur við viðgerðir og umgengni fornra og friðaðra mannvirkja
- þekki helstu hugtök, verkfæri og hleðslugerðir er tíðkast í torfhleðslu  
- geti hlaðið og gengið frá torfvegg með klömbruhnaus og/eða streng 

Efnisatriði / kjarnahugtök m.a: 
Hleðsla, húsgrunnur, undirbúningur í gömlu hússtæði, mismunandi gerðir hnausa (innri/ytri hleðsla), strengir og torfur, hnausar lagðir á mismunandi hátt í lag í vegg, strenghleðsla, að jafna hleðslu, skera utan af, moldarfylling (að molda, mylda), kamphleðsla, hleðsla horna, flái á veggjum og gafli, ending torfveggja, endurbætur torfveggja (veggurinn gúlpar, kastar sér, er skotóttur, snaraður, moldrunninn, að gilda upp vegg), hliðarvegur, gaflveggur, gaflhlað.

Grjótnám (hleðslugrjót), flutningur, grjóthleðsla, undirstöðusteinar, kampsteinar, smásteinar, hellubrot (klípa), torf á milli laga, moldarfylling, þjöppun, veggjagrjót jafnað, kampur, tóftardyr, innri gafl, garði, garðastokkur/garðaband, garðabrún, garðahöfuð, kró.

Ferðamáladeild Háskólans á Hólum er aðili að Fornverkaskólanum, ásamt Byggðasafni Skagfirðinga og Tréiðnaðardeild Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra.

26.05.2017 - 09:00 to 28.05.2017 - 18:00
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is