Útikennsla í Ferðamáladeild - stígagerð ferðamálanema

Hið árlega göngustíganámskeið ferðamálanema á 1. ári var haldið nýlega. Námskeiðið er hluti af námskeiðinu Gönguferðum og leiðsögn og jafnframt mikilvægur hluti af námi til landvarðarréttinda sem Umhverfisstofnun (UST) veitir. Þar var unnið að ýmsum verkefnum er tengjast því að hanna og viðhalda göngustígum. Námskeiðið er haldið í góðu samstarfi Hólaskóla við „sjálfboðaliða í náttúruvernd“ sem René Biasone, teymisstjóri hjá UST heldur utan um. Unnið var í alls konar veðri, slyddu, snjókomu og svo smásól. Nemendur létu veðrið ekki hafa mikil áhrif og var mikill kraftur og gleði hjá öllum þátttakendum. 
 
Unnið var að viðgerð göngustígsins upp í Gvendarskál, en vegna veðurs var ekki farið ofarlega. Þess í stað var unnið að afmörkun stígar og gerð grjótþrepa rétt ofan skógar, og var tilgangurinn að koma í veg fyrir jarðvegsrof og um leið að stýra ferðamönnum. Nemendur fengu góða innsýn inn í það mikla verk sem viðhald og lagning göngustíga er og mikilvægi slíkra innviða fyrir ferðaþjónustu á Íslandi. Jafnframt voru gerð svokölluð kassaþrep á skógarstígum inn á tjaldsvæði. Þetta er gert þar sem jarðvegur er of grunnur ti að grafa fyrir stíg og í stað þess er kassi lagður á jörðina og fyllltur með jarðvegi. Þannig er hægt að afmarka stíginn og koma í veg fyrir frekara jarðvegsrof. Einnig var endurgerð brú, sem var farin að láta á sjá, enda að verða 10 ára gömul. 
 
Á sama tíma heimsóttu þrír ferðamálafræðingar með BA-gráðu frá Ferðamáladeild Háskólans á Hólum. Unnu þeir einnig að stígagerð og m.a. hreinsuðu þeir lúpínu og annan gróður sem hafði kaffært grjótbyrgi í skóginum. Byrgi þetta var líklega notað af geitahirði og örnefnið Geitagerði er þaðan komið. Þessir góðu gestir klipptu einnig greinar víða í skóginum, þar þær sem sköguðu inn á göngustígana og unnu margt fleira. 
 
Eftir þriggja daga puð og skemmtun er búið að bæta ýmsa göngustíga inni í Hólaskógi, koma í veg fyrir rof og gera stíga sýnilegri og þar með öruggari. Þessara gönguleiða um Hólaskóg eiga íbúar, nemendur og gestir á Hólastað vonandi eftir að njóta lengi.
 
Kennari og umsjónarmaður námskeiðs er Kjartan Bollason, lektor við Ferðamáladeildina. Jafnframt kenndu René Biasone teymisstjóri hjá UST og Roger, langtímasjálfboðaliði hjá UST, en þetta var hans tíunda ár hérlendis.  Vill Hólaskóla þakka þeim sérstaklega frábært framlag í kennslu á námskeiðinu. Síðast en ekki síst vilja kennarar þakka nemendum fyrir mjög gott starf, mikinn áhuga, mikla gleði og gæði.
 
Kjartan Bollason.
 
Við bendum einnig á myndir René Biasone, á Facebook.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is