Vefur um náttúru Skagafjarðar | Háskólinn á Hólum

Vefur um náttúru Skagafjarðar

Á Degi íslenskrar tungu gaf Háskólinn á Hólum út vef  um náttúru Skagafjarðar. Höfundur vefsins er Sólrún Harðardóttir kennari og námsefnishöfundur en Sáttmálasjóður, Sáttmáli til sóknar í skólamálum í Skagafirði styrkti gerð hans.
 
Um er að ræða fræðsluefni fyrir stálpaða krakka, unglinga og áhugasaman almenning. Vefurinn er umfangsmikill, á við myndarlega kennslubók, og fjallar um jarðfræðileg fyrirbæri, landslag, byggðarlög, örnefni, áhugaverða staði, lífríkið, umgengni mannsins, sjálfbærni, veður og auk þess eru þarna nokkur ljóð og málverk. Á vefnum er einnig fjöldi skapandi verkefna.
 
Með vefnum verður til ákveðin tenging vísindasamfélags og almennings en markmið hans er að lesendur
 
·       öðlist heildarmynd af náttúru Skagafjarðar,
·       þekki séreinkenni náttúrunnar í Skagafirði,
·       kynnist nokkrum náttúruperlum svæðisins,
·       noti nánasta umhverfi til þess að læra um náttúruna,
·       læri að bera virðingu fyrir náttúrunni,
·       finni sig sem hluta af samfélagi Skagfirðinga sem saman þurfa að gæta þess umhverfis sem næst þeim er og þeir bera sérstaka ábyrgð á.
 
Okkur þótti við hæfi að opna vefinn á þessum degi enda er skortur á íslensku rafrænu námsefni. Ekki er verra að skáldið Jónas var líka náttúrufræðingur!
 
Slóðin að vefnum er: náttúraskagafjarðar.is
 
Háskólinn á Hólum bauð til opnunarathafnar heima að Hólum í dag og var henni stýrt af Erlu Björk Örnólfsdóttur. Eftir að Sólrún hafði kynnt vefinn og helstu þætti í uppbyggingu hans, flutti fræðslustjóri Sveitarfélagsins, Selma Barðdal, stutt ávarp og nemendur Grunnskólans austan Vatna á Kollugerði sungu velþekkt íslensk ljóð, við undirleik Jóhanns Bjarnasonar. Að því búnu gafst gestum kostur á að vafra stafrænt um Náttúru Skagafjarðar og loks var boðið upp á heitt súkkulaði og íslenskt meðlæti hjá Undir Byrðunni.
 
Hér fyrir neðan má skoða nokkrar myndir, sem Guðmundur B. Eyþórsson tók (smellið á þær til að nálgast stærri útgáfu).
 
 
 
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is