Viðburðalandið Ísland | Háskólinn á Hólum

Viðburðalandið Ísland

Ráðstefna á vegum Ferðamáladeildar.
 
Fimmtudaginn 21. september sl. stóð Ferðamáladeild Háskólans á Hólum fyrir ráðstefnu um viðburði og stjórnun þeirra. Um 70 manns sóttu viðburðinn sem haldinn var á efstu hæð menningarhússins Hörpu. Ráðstefnuna setti Laufey Haraldsdóttir deildarstjóri Ferðamáladeidlar. Ráðstefnustjóri var Jakob Frímann Þorsteinsson aðjúnkt í Tómstundafræði við Háskóla Íslands og skipuleggjandi ráðstefnunnar var Áskell Heiðar Ásgeirsson viðburðastjóri og kennari við Ferðamáladeild Háskólans á Hólum. 
 
Aðalfyrirlesari var Michelle Lanham - Senior Lecturer við UK Centre for Events Management í Leeds Beckett University í Bretlandi. Bar erindi hennar heitið: „Creative Event Management-Designing authentic and memorable experiences for the consumer“. Ferðamáladeildin hefur um árabil átt gott samstarf við Leeds Beckett University í Leeds á sviði viðburðastjórnunar, bæði í gegnum kennara- og nemendaskipti og sameiginlegar rannsóknir á sviði viðburða. Til gamans má geta að báðar þessar deildir voru stofnaðar árið 1996 og héldu því upp á 20 ára afmæli á síðastliðnu ári. 
 
Haldnar voru kynningar sem sýndu hina fjölbreyttu flóru viðburða sem haldnir eru á Íslandi ár hvert. Viðburðastjórar og skipuleggjendur sögðu frá reynslu sinni, áskorunum, lærdómi og ávinningi af viðburðahaldi. Auk þess sem fjallað var um rannsóknir á viðburðum á Íslandi. Eftirfarandi erindi voru haldin:
 
Eistnaflug
-Stefán Magnússon og Hrefna Hugosdóttir skipuleggjendur Eistnaflugs  
 
Unglingalandsmót UMFÍ
-Ómar Bragi Stefánsson frá UMFÍ
 
Ráðstefnur og fundir
-Hanna Margrét Hrafnkelsdóttir frá Meet in Reykjavík
 
Sýningar og viðburðir erlendis
-Guðný Káradóttir frá Íslandsstofu
 
Viðburðahúsið Harpa
-Svanhildur Konráðsdóttir forstjóri Hörpu
 
Rannsóknir á viðburðum á Íslandi: Landsmót hestamanna
-Ingibjörg Sigurðardóttir lektor við Háskólann á Hólum
 
Hátíðahöld á Akureyri
-Davíð Rúnar Gunnarsson frá Viðburðastofu Norðurlands
 
Áhugaverð umræða um mismunandi svið viðburða og viðburðastjórnunar varð í kjölfar erindanna en umræðustjóri var Guðrún Þóra Gunnarsdóttir forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála.
 
Viðburðurinn var hluti af staðbundinni lotu nemenda í námskeiðinu „Viðburðastjórnun“ og tóku þeir virkan þátt í ráðstefnunni og umræðum þar. Góð stemmning var á ráðstefnunni og var mál manna að ástæða væri til að halda áfram slíku samtali milli viðburðastjóra, nemenda í viðburðastjórnun og fræðimanna á þessu sviði með árlegum ráðstefnum sem þessari.
 
Ingibjörg Sigurðardóttir og Laufey Haraldsdóttir. Myndir (utan ein): Ingibjörg Sigurðardóttir.
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is