Vísindavaka 2019 - stefnumót við vísindamenn | Háskólinn á Hólum

Vísindavaka 2019 - stefnumót við vísindamenn

Vísindavaka Rannís 2019 verður haldin í Laugardalshöllinni í Reykjavík, laugardaginn 28. september og hefst kl. 15:00.

Markmiðið með Vísindavökunni er að færa vísindin nær almenningi, kynna einstaklingana á bak við þau og vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi rannsókna- og vísindastarfs í nútímasamfélagi. Alls konar vísindagreinar eru kynntar á Vísindavöku, hugvísindi jafnt sem raunvísindi.

Og Háskólinn á Hólum tekur þátt, undir yfirskriftinni Maðurinn í náttúrunni: Hvað eiga norðurljós, reiðingur og hornsíli sameiginlegt?

Nánar um framlag Háskólans á Hólum

Rýni náttúrunnar - líffræðileg fjölbreytni 
Íslensk vötn og ár bjóða upp á margbreytilegar aðstæður fyrir lífverur. Vegna eldvirkni og landreks og þess að Ísland er eyja hafa fáar tegundir numið hér land frá síðustu ísöld. Þessar tegundir hafa óhindrað nýtt sér tækifæri til að aðlagast ólíkum búsvæðum, sem hefur stuðlað að hraðri þróun afbrigða og stofna innan tegunda og jafnvel myndun nýrra tegunda. Þetta kemur skýrt fram í þróun lífs í fersku vatni, ekki síst hjá bleikju og hornsílum. Verndun líffræðilegrar fjölbreytni er lykilatriði í allri umgengni okkar við náttúruna og Háskólinn á Hólum hefur um árabil sinnt rannsóknum á þessu sviði.
 
Nýting náttúrunnar - reiðingur
Íslenskt votlendi er ríkt af alls konar lífverum og efnum sem hafa nýst okkur frá landnámi. Meðal þess er reiðingur, sem er þétt og þykk rótarflækja mýrarplanta. Hann var ristur upp og þurrkaður og notaður sem dýna undir t.d. klyfbera, sem notaðir voru til flutninga á hestum, eða sem dýna í rúm og til að byggja úr, með öðrum efnum. Gönguferðagarpar ganga stundum á honum þegar farið er um mýrlendi og geta í leiðinni dáðst að lífverum og plöntum á vistsvæði hans. Stundum er hægt að skoða reiðing á safnsýningum, í gömlum torfveggjum og við ýmis önnur tækifæri. Háskólinn á Hólum sinnir rannsóknum á sviði torfbygginga og minjaverndar.
 
Upplifun náttúrunnar - norðurljós
Ferðamenn koma til landsins bæði að vetri og sumri til að upplifa margbreytileika náttúrunnar, menninguna og mannlífið. Sérstaða Íslands felst meðal annars í eldvirkni landsins og norðlægrar legu þess. Hér geta ferðamenn upplifað birtu allan sólarhringinn að sumri og myrkur meirihluta sólarhrings að vetri. Þeim stendur til boða að upplifa frost og snjó, heitar laugar og norðurljós, allt í senn. Einstök upplifun sem skapar dýrmætar minningar. Við Háskólann á Hólum eru stundaðar rannsóknir á þörfum og væntingum ferðamanna sem hingað koma og á upplifun þeirra af ferðalaginu. Rannsóknirnar ganga einnig út á að skoða hvernig ferðaþjónustufyrirtæki geta komið til móts við væntingar gesta og „skapað“ minningar um leið og uppfylltar eru kröfur um ábyrga og sjálfbæra ferðaþjónustu. 
 
Nánari upplýsingar um Vísindavökuna er á finna hér á vef Rannís.
 
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is