Um Háskólann á Hólum

Háskólinn á Hólum býður upp á nám á fræðasviðum sem eru nátengd nýtingu auðlinda og nýsköpun atvinnugreina. Sérhæfing náms við háskólann er á fræðasviðum ferðamála í dreifbýli, viðburða-stjórnunar, stjórnunar ferðaþjónustu og móttöku gesta, fiskeldis-, sjávar- og vatnalíffræði og hestafræða, með áherslu á reiðmennsku og reiðkennslu. Fyrirkomulag námsins er ýmist staðbundið þar sem nemendur búa heima á Hólum, eða í næsta nágrenni skólans, eða blandað nám (fjarnám með staðbundnum lotum), óháð búsetu.
Háskólinn hlaut viðurkenningu fræðasviða sinna árið 2008. Hann byggir starf sitt á mennta- og menningarsögu Hólastaðar og rótgróinni sérstöðu Íslands: Íslenska hestinum, gjöfulum vistkerfum til lands og sjávar og hefð fyrir sjálfbærri nýtingu auðlinda, náttúruauðgi, menningararfi og gestrisni Íslendinga. Háskólinn starfar samkvæmt lögum um háskóla (63/2006) og lögum um opinbera háskóla (85/2008) með áorðnum breytingum.
Háskólinn er sérhæfð menntastofnun þar sem nánd einstaklinga er mikil og boðleiðir stuttar. Höfuðstöðvar háskólans eru að Hólum í Hjaltadal en háskólinn hefur einnig starfsstöð að Háeyri 2 á Sauðárkróki. Hjartað í starfsemi Ferðamáladeildar og Hestafræðideildar er að Hólum og þar eru og höfuðstöðvar stoðþjónustu háskólans. Megin starfsstöð Fiskeldis- og fiskalíffræðideildar er á Sauðárkróki en bleikjukynbótaverkefni skólans er á Hólum.
Háskólinn á Hólum er stoltur þátttakandi í fræðastarfi íslenskra háskóla og leggur sig fram um að auka auð íslensk samfélags með fjölbreyttri kennslu, góðum tengslum við atvinnulífið og öflugu fjölþjóðlegu rannsóknasamstarfi.

Starf háskólans byggir á gildum hans, fagmennsku, virðingu og sköpun.