BS í reiðmennsku og reiðkennslu

Námið er metið til samtals 180 ECTS, eða sem samsvarar fullu námi í þrjú skólaár. Til viðbótar við að hafa lokið stúdentsprófi þurfa nemendur að standast inntökupróf í reiðmennsku áður en þeir geta hafið BS námið.
Meginmarkmið námsins er að veita nemendum fræðilega og hagnýta þekkingu og verklega færni í tamningum, þjálfun, reiðmennsku og reiðkennslu. Fjallað er um líffræði hesta, atferli þeirra og náttúrulegt eðli. Nemendur læra einnig um meðferð og fóðrun hesta, bæði fræðilega og með verklegri þjálfun. Farið er yfir sögu hestsins og gildi hestamennsku í samfélaginu. Nemendum er veitt undirstöðumenntun í uppeldis- og kennslufræðum, aðferðafræði og vísindalegum vinnubrögðum sem byggt er ofan á með sérhæfðri reiðkennslu og æfingakennslu. Mikil áhersla er lögð á fræðilega þekkingu og verklega þjálfun. Nemendur hljóta jafnframt trausta vísindalega grunnþjálfun sem nýtist til þátttöku í rannsóknarverkefnum, í framhaldsnámi og sjálfstæðri þekkingaröflun á sviði hestaþjálfunar, reiðmennsku og reiðkennslu.
Námið er fjölbreytt að viðfangi og aðferðum þar sem bókleg og verkleg kennsla er samþætt. Kennslan byggist á fyrirlestrum, lestri fagefnis, notkun myndbanda og fjölbreyttri verkefnavinnu nemenda. Mikil áhersla er lögð á verklega þjálfun í formi einkakennslu, hópkennslu og sýnikennslu. Nemandinn tekur þátt í sýningum, keppni og fjölbreyttri æfingakennslu. Fræðilegt lokaverkefni er unnið á 3. námsári.

Þú getur skoðað skipulag námsins í Uglu, kennsluvef háskólans.