Um Háskólann á Hólum

Skólastarf á Hólum á sér langa sögu. Hinn forni Hólaskóli var stofnaður 1106 í tíð Jóns Ögmundarsonar biskups. Síðan þá hefur skólastarf á Hólum verið nær óslitið. Staðsetning skólans á þessum merka sögu- og helgistað þjóðarinnar gefur honum mikla sérstöðu. 

Starfsemi Háskólans á Hólum heyrir undir ráðuneyti mennta- og menningarmála og ber ráðherra ábyrgð á að skólinn uppfylli lagaleg skilyrði um gæði menntunar. Frá 1. júlí 2013 lýtur starfsemin lögum um opinbera háskóla, með áorðnum breytingum, og á sama tíma lauk gildistíma laga um búnaðarfræðslu.

Viðurkenning menntamálaráðherra frá 2008.

Háskólinn á Hólum er miðstöð fyrir kennslu og rannsóknir í hrossarækt og hestamennsku, fiskeldis- og fiskalíffræði og ferðaþjónustu í dreifbýli. Við skólann er heimilt að starfrækja alþjóðlega deild í hrossarækt og hestamennsku þar sem innheimta má skólagjöld. Stjórn Háskólans á Hólum er heimilt að stofna til kennslu eða rannsókna á öðrum fræðasviðum, enda uppfylli starfsemin skilyrði til viðurkenningar samkvæmt lögum um háskóla.

Samningur mennta- og menningarmálaráðuneytis og Hólaskóla - Háskólans á Hólum 2012 - 2016

Stjórn Háskólans á Hólum er falin háskólaráði og rektor. Háskólaráð markar stefnu í kennslu og rannsóknum og mótar skipulag háskólans. Ákvarðanir um skipulagningu fagdeilda háskólans og starfstilhögun eru teknar af háskólaráði.

Framkvæmdaráð og deildir
Við Háskólann á Hólum eru þrjár deildir sem hver um sig ber ábyrgð á þeim námsleiðum og kennslu- og rannsóknaverkefnum sem tilheyra viðkomandi deild. Með samnýtingu mannafla, aðstöðu til tilrauna, kennslutækja sem og annarrar aðstöðu er stefnt að því að efla fjölbreytt vísindastarf og tryggja hagkvæmni í rekstri.
Framkvæmdaráð háskólans sinnir daglegum rekstri og samræmir starf sviða og deilda. Í framkvæmdaráði sitja rektor, deildarstjórar, mannauðsstjóri og fjármálastjóri.

Lög sem um Háskólann á Hólum gilda