Íslensku knapamerkin

Knapamerkin eru flestum hestamönnum á Íslandi kunn en þetta stigskipta reiðkennslukerfi telur til fimm stiga bæði á íslensku og ensku.
Markmiðið með Knapamerkjunum er að stuðla að auknum áhuga á reiðmennsku og hestaíþróttum og auðvelda aðgengi, bæta þekkingu, meðferð og notkun á hestinum.
Vinna við Knapamerkin hófst á vegum Átaks í hestamennsku sem var starfrækt á árunum 2000 - 2004 og að því stóðu Bændasamtök Íslands, Landsamband hestamannafélaga, Félag tamningamanna og Félag hrossabænda en þessi samtök ýttu verkefninu af stað áður en það færðist yfir til árið 2004.

Höfundur bókanna er Helga Thoroddsen en Knapamerkin eru í umsjón og ábyrgð Háskólans á Hólum sem er jafnframt útgefandi námsefnisins. Knapamerkin eru frábær grunnur fyrir alla hestamenn til að byggja á og bæta sig. Bóklega efnið er líklega besta og viðamesta efnið sem til er um íslenska reiðmennsku og eykur
skilning á hestinum og reiðmennsku.

Á 1. og 2. stigi er farið yfir öll helstu grunnatriði hestamennskunnar: m.a. helstu öryggisatriði, atferli og líkamsbyggingu hesta, ásetu, taumhald knapans og umgengni við hesta, gangtegundir, að hesturinn sé rólegur og í jafnvægi og einnig er lagður grunnur að fimiæfingum.
Þeir sem telja sig hafa nægilega góðan grunn geta tekið stöðupróf á stigum 1 og 2, og ef þeir ná þeim, farið beint á 3. stig.
Á 3. stigi er lögð áhersla á nákvæmari reiðleiðir, stígandi ásetu, bauga og baugavinnu, kenndar eru fimiæfingarnar framfótasnúningur og krossgangur,
fjallað er ítarlega um fóðrun og byggingu hestsins, gangtegundir hestsins og hreyfistig. Námið þyngist svo jafnt og þétt, á stigi 4 og 5 er farið í dýpri og ítarlegri hluti.
Á 4. stigi er farið vel yfir allt það sem snýr að knapanum,
t.d. sjálfstraust, hugþjálfun og líkamsbeitingu. Sérstakur kafli er um fætur, bak og tennur hestsins. Fjallað er ítarlega um þjálfunarhugtök líkt og jafnan
takt, samspil, samspora, sveigjanleika, fjöðrun, spyrnu, söfnun, burð og svo mætti lengi telja.
Á 5. stigi er að finna mjög fróðlegan kafla um þjálfunarlífeðlisfræði sem er skrifaður af Guðrúnu Stefánsdóttur dósent við Háskólann á Hólum og Höskuldi Jenssyni dýralækni,
saga reiðmennskunnar er gerð skil, ítarlega er farið í gangtegundaþjálfun og leiðir til að bæta gangtegundir skýrðar í máli og myndum. 

Upplýsingar um starfandi reiðkennara Knapamerkjanna má finna á heimasíðunni, Knapamerki.is, ásamt fjölmörgum öðrum upplýsingum.