Eldri rannsóknir

Frjósemi

Könnun á frjósemisþáttum íslenskra hrossa
Tímabil:1995-1997
Rannsóknin var unnin sem mastersverkefni í hestafræðum við háskólann í Aberystwyth í Wales. Gagna var aflað í samvinnu við hrossaræktarsamböndin í landinu, Bændasamtök Íslands, nokkra dýralækna og fjölda hrossaræktenda um land allt. Með rannsókninni fengust niðurstöður um ýmsa undirstöðuþætti varðandi frjósemi íslenskra hrossa s.s. fanghlutfall stóðhesta og áhrif ýmissa þátta þar á s.s. árstíma, þjálfunarstig og frjósemistig hryssna. Einnig veittu niðurstöðurnar upplýsingar um sæðisgæði íslenskra stóðhesta. Þá fengust niðurstöður um nokkra þætti varðandi frjósemi hryssna s.s. áhrif aldurs og frjósemistigs á fanghlutfall þeirra, tíðni fósturláts og lengd meðgöngu.
Styrktaraðilar: Framleiðnisjóður landbúnaðarins og hrossaræktarsamböndin.

Þróun fósturvísaflutninga í íslenskri hrossarækt
Tímabil:1997-2000
Verkefnið var unnið í samstarfi við rannsóknastöð í hestafrjósemi í Newmarket í Englandi (TBA, fertility unit) þar sem starfsmenn Háskólans á Hólum fengu verkþjálfun og faglega aðstoð við uppbyggingu á tækjabúnaði og aðstöðu sem nauðsynleg telst.
Unnið var að verkefninu vorin 1997 og 1999. Fyrra árið voru fósturvísar fluttir með skurðaðgerð á fóstru en seinna árið í gegnum legháls. Eftir þessa tveggja ára þróunarvinnu hefur verið sýnt fram á að aðferðin er raunhæfur möguleiki til ræktunar úrvalshrossa í íslenskri hrossarækt. Við þróunarvinnuna fyrstu tvö árin (1997og 1999) var alfarið unnið með hryssur Háskólans á Hólum en vorið 2001 var þessi möguleiki boðinn öllum hrossaræktendum.
Styrktaraðili: Framleiðnisjóður landbúnaðarins.

Þjálfunarlífeðlisfræði

Athugun á undirstöðuatriðum varðandi þjálfunarlífeðlisfræði íslenskra hrossa
Tímabil:1993-1994.
Athugun var gerð á hópi reiðhrossa við Háskólann á Hólum. Upplýsingar fengust um grunnþætti þjálfunarlífeðlisfræði fyrir íslensk hross eins og til dæmis hvíldarpúls og áhrif mismunandi álags á púls. Einnig komu fram vísbendingar um áhrif þjálfunar á þrek reiðhrossa.

Sjúkdómar og heilsufræði

Ending og förgunarástæður íslenskra hrossa
Tímabil:2001-2003
Samstarfsaðili: Landbúnaðarháskólinn í Uppsölum
Rakinn var æviferill 772 hrossa, sem fædd eru á árunum 1980-1985 og 1990-1991. Markmiðið var að kanna endingu og algengustu förgunarástæður.Við úrvinnslu gagnanna var notuð aðferðafræði endingargreininga (survival analysis) og reiknuð endingarföll. Við um 17 vetra aldur voru 50% af hestum enn á lífi og í notkun en miðgildið var um 18 vetra aldur fyrir hryssur. Notkun hrossanna á hverjum tíma, almanaksár, uppruni og kynbótamat reyndust hafa marktæk áhrif á endingarfallið. Algengustu förgunarástæður voru fækkun ræktunarhryssna (20,4%) og slæmt geðslag (16,4%) en næst á eftir komu helti (12,4%) og slysfarir (10,9%). Niðurstöður birtust í mastersritgerð Valbergs Sigfússonar og hafa auk þess verið kynntar meðal hrossaræktenda, á fundi fagráðs í hrossarækt haustið 2003 og í Frey 2003.
Styrktaraðili: Stofnverndarsjóður íslenska hestsins.

Spatt í íslenskum hestum. Faraldsfræði, arfgengi, klínísk einkenni og orsakir
Tímabil: 1995-1998
Samstarfsaðilar verkefnisins voru frá Dýralæknadeild Landbúnaðarháskóla Svíþjóðar (SLU) í Uppsölum, Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum og ráðgjafafyrirtækinu IHBC AB, Morgongåva í Svíþjóð.
Með rannsókninni fékkst yfirlit yfir tíðni spatt sjúkdómsins í íslenskum reiðhestum og sambandið milli röntgengreiningar og klínískra einkenna. Lagt var mat á arfgengi sjúkdómsins og áhrif byggingar, hæfileika og ýmissa umhverfisþátta á tíðni hans voru könnuð. Gagnavinnsla fór fram á árunum 1995-1996 og úrvinnsla gagna fór fram á árunum 1997-1998.
Niðurstöðurnar hafa verið birtar í erlendum vísindaritum og á ráðstefnum. Niðurstöðurnar voru einnig kynntar fyrir hrossaræktendum og hestamönnum með grein í Bændablaðinu 1998, og í viðtölum sem birtust í tímaritunum Eiðfaxa og Hestinum okkar árið 1997. Jafnframt voru niðurstöðurnar kynntar á fræðslufundum hjá hrossaræktarsamböndum og á opnum samráðsfundi Fagráðs í hrossarækt árið 1997.
Styrktaraðilar: Framleiðnisjóður landbúnaðarins, Vísindasjóður og Útflutnings- og markaðsnefnd íslenska hestsins.

Atferlisfræði

Innræting folalda
Tímabil: 2000 -
Árið 2000 hófst vinna við verkefni um innrætingu folalda (imprint-training) við Háskólann á Hólum. Þetta verkefni byggir á hugmyndum og aðferðum hins ameríska dýralæknis dr. Roberts Miller. Hann heldur því fram að námsgeta nýfæddra folalda sé mun meiri en síðar á æviskeiðinu og að hana megi nýta til að flýta fyrir tamningu á þann hátt að meðhöndla folöld á fyrstu klukkustundum og dögum lífsins. Í rannsókninni voru 22 folöld meðhöndluð en 22 folöld fengu ekki meðhöndlun. Að hausti kom í ljós að árangur var enginn og benda niðurstöður rannsóknarinnar til þess að hross læri ekki með innrætingu.
Þetta verkefni er enn í gangi, því ætlunin er að fylgja þeim folöldum sem tóku þátt í verkefninu eftir í gegnum frumtamningu og sjá hvort þar komi fram munur.
Styrktaraðili: Kennaraháskóli Íslands.

Eru hestar ættræknir?
Tímabil: 2003 - 2004
Sumarið 2003 hófst rúmlega tveggja mánaða atferlisfræðirannsókn þar sem leitast var við að svara spurningunni „Eru hestar ættræknir?“. Verkefnið vann Kate Sawford, kanadískur dýralæknanemi, undir leiðsögn Hrefnu Sigurjónsdóttur dýraatferlisfræðings og prófessors í líffræði. Verkefnið var unnið á Hólum í Hjaltadal. Grunnhópurinn voru 15 tryppi í eigu Háskólans á Hólum, en síðan bættust níu aðkomutryppi, eitt í einu, í hópinn með nokkurra daga millibili. Niðurstöður benda til þess að skyld hross haldi sig oftar nærri hvort öðru en hafi ekki endilega meiri samskipti sín á milli að öðru leyti. Reynslan af verkefninu gaf tilefni til að rannsaka þetta frekar.
Styrktaraðilar: Nýsköpunarsjóður og University of Guelph Canada.

Atferli hrossa að vetri til
Tímabil: 2001-2004
Meginmarkmið þessarar rannsóknar var að gera forstigskönnun á skjólnotkun hrossa að vetri til, svo hægt væri að undirbúa frekari rannsókn. Jafnframt var tilgangurinn að skoða félagshegðun og tímanotkun hrossa að vetri til. Rannsóknin fór fram á Hólum í Hjaltadal. Gagna var aflað seinni hluta vetrar 2001 með því að fylgjast með og mæla hegðun tveggja hópa með 19 og 23 hrossum og síðan var hegðun þriggja hópa með 19, 28 og 30 hrossum mæld veturinn 2002. Til að meta félagsgerðina voru öll samskipti sem sáust skráð og tímanotkun metin með svonefndri skimunaraðferð (instantaneous scanning). Skjólnoktun hrossanna reyndist vera afar lítil og var eingöngu mælanleg hjá einum hóp. Hrossahópunum var gefið vel af heyi, en ekki við skjólin. Á meðan hrossin höfðu nægt hey leituðu þau ekki í skjólið. Marktæk virðingarröð var í öllum hópunum. Geldingarnir voru ofar í virðingarröðinni en hryssurnar en aldur og þyngd réðu þó mestu um stöðu einstaklinganna. Eldri hrossin voru jafnframt árásargjarnari. Hross sem voru ofarlega í virðingarröðinni héldu betur holdum en þau sem voru neðarlega. Í vondum veðrum voru hærra settir einstaklingar oftar í skjóli fyrir veðrinu en þeir sem voru lægra settir og voru þeir síðarnefndu meira á beit í einum hópnum og í öðrum voru þau minna í heyi. Mestur tími hrossanna fór í að éta og næstmestur í hvíld.
Niðurstöður benda til að ráðandi hross geti bæði tryggt sér meiri aðgang að heyi og notið skjóls frá lægra settum hrossum. Huga þarf að því, þegar hrossahópar eru settir saman í girðingar, að draga eins og unnt er úr hættu á því að yngri hross og uppburðarlítil verði undir í samkeppninni um fæðu og skjól. Í ljósi þessara niðurstaðna væri áhugavert að gera rannsókn á skjólanotkun að vori og hausti, þegar úrkoma er tíð og hrossum ekki gefið mikið hey.
Styrktaraðili: Kennaraháskóli Íslands, Hólaskóli og Rannís.

Fóðurfræði

Meltanleiki vallarfoxgrass í íslenskum hrossum
Tímabil: 2003 -
Verkefnið var unnið í samvinnu við Rannsóknastofnun Landbúnaðarins og Landbúnaðarháskólann í Uppsölum.
Tilgangur verkefnisins er að meta sjáanlegan (apparent) meltanleika fjögurra mismunandi gæða (mismunandi sláttutími) vallarfoxgrass í íslenskum hrossum, með heildarsöfnun á skít og þvagi. Tilraunin er í lotum, þar sem hver lota er 20 dagar með 14 daga aðlögun og 6 daga söfnunartímabili. Sýnin sem tekin eru af fóðri, skít og þvagi eru fryst og síðan efnagreind. Niðurstöðurnar gefa ákveðnar grunnupplýsingar um íslenska hestinn sem jafnframt má nota til samanburðar við önnur hestakyn. Auk þess stuðla niðurstöðurnar að nákvæmari fóðurleiðbeiningum fyrir hross hérlendis og styðja við upptöku á nýju fóðurmatskerfi fyrir hross á Íslandi. Verkefnið er mastersverkefni Sveins Ragnarssonar í fóðurfræði við Landbúnaðarháskólann í Uppsölum í Svíþjóð.
Styrktaraðilar: Framleiðnisjóður og Átaksverkefni í Hrossarækt

Mat á viðhaldsþörfum íslenskra hrossa
Tímabil: 2003 -
Verkefnið var unnið í samstarfi við Rannsóknastofnun Landbúnaðarins og Landbúnaðarháskólann í Uppsölum.
Tilgangur verkefnisins er að meta viðhaldsorkuþörf íslenskra hrossa út frá vigtarbreytingum. Fylgst er með lífþunga níu hrossa í 3-4 mánuði. Hrossunum er skipt í þrjá hópa, þar sem hver hópur er fóðraður á mismunandi magni af sama fóðri, einn hópur er á yfirfóðrun, annar nálægt viðhaldsfóðrun og sá þriðji er undirfóðraður. Fóðrið er nákvæmlega vigtað í hrossin og þurrefnissýni tekin reglulega úr því. Hrossin eru vigtuð og holdstiguð vikulega og aðhvarf síðan reiknað útfrá lífvigtarbreytingum. Vonast er til að niðurstöðurnar veiti upplýsingar um viðhaldsþörf hrossa við staðlaðar aðstæður hér á landi.
Styrktaraðilar: Framleiðnisjóður og Átaksverkefni í Hrossarækt

Þróun á holdastigskvarða til að meta holdafar íslenskra hrossa
Tímabil: 1996-2001
Nám við Háskólann á Hólum hefur verið í sífelldri þróun. Kennsla á sviði hestamennsku hefur vaxið mjög mikið síðustu árin og miðast við sérhæfingu og fagmennsku á því sviði. Með tilkomu hrossaræktardeildar við Háskólann á Hólum hófst þróun á stigunarkvarða sem notaður er til að meta holdafar hrossa. Komin er mikil reynsla af notkun kvarðans. og hefur hann reynst hentugt hjálpartæki við mat á holdafari hrossa. Sambærilegir kvarðar sem til eru erlendis eru einkum fyrir stór hestakyn og því hentaði ekki að taka þá óbreytta upp hér á landi. Hinn íslenski holdastigskvarði er einnig ætlaður til leiðbeiningar fyrir hvern þann sem fóðrar hross og sem viðmiðun við forðagæslu og gæðastýringu.