Gæðastefna

Gæðastefna Háskólans á Hólum setur ramma um gæðastarf háskólans og mótar það til framtíðar. Stefnan miðar að því að auka gæði háskólastarfsins og tryggja að rannsóknir og prófgráður, sem og náms- og starfsumhverfi háskólans standist alþjóðleg viðmið og gæðakröfur. Gæðastefnan er forsenda þess að háskólinn njóti trausts innanlands og á alþjóðlegum vettvangi. Háskólinn á Hólum er sjálfstæð mennta- og rannsóknastofnun þar sem saman kemur öflun, sköpun, miðlun og varðveisla þekkingar. Auk þess sem akademískt frelsi og ábyrgð eru höfð að leiðarljósi. Háskólinn leitast við að mennta einstaklinga sem geta tekist á við áskoranir samtímans og hafi þroskað gagnrýna hugsun og getu til þess að afla frekari þekkingar. Rannsóknir Háskólans á Hólum eru unnar af heilindum þar sem siðareglur háskólans og almennar reglur og hefðir um vísindaleg vinnubrögð eru höfð í heiðri. Forsenda þess að árangur náist er að Háskólasamfélagið – starfsfólk og nemendur - vinni sameiginlega að stöðugum umbótum í starfsemi skólans til þess að ná fram markmiðum hans til hagsbóta fyrir allt skólastarfið. Með því styrkir Háskólinn á Hólum íslenskt samfélag ásamt því að vera þáttakandi í alþjóðlegu þekkingarstarfi. Gæðastefnan er vegvísir fyrir háskólasamfélagið, stjórnendum, nemendum og starfsfólki skólans ber að taka mið af stefnunni í öllum sínum verkum. Gæðastefnan er hluti af heildarstefnu háskólans sem er endurskoðuð reglulega.

Gæðastefna Háskólans á Hólum
Samþykkt á starfsmannafundi 5. júní 2019.