Rannsóknastefna

Formáli
Hér er gerð grein fyrir rannsóknastefnu Háskólans á Hólum, sem unnin var af rannsóknanefnd skólans. Rannsóknastefnan er almennt orðuð stefnuyfirlýsing sem lýsir grunngildum skólans varðandi rannsóknir og megin atriðum rannsóknastefnu. Í viðaukum er að finna frekari útfærslu á rannsóknastefnunni t.d. í reglum um rannsóknamisseri akademískra starfsmanna, reglum um lækkun kennsluskyldu akademískra starfsmanna og ferðareglum vegna ferða erlendis. Rannsóknastefna skólans tekur ekki á viðfangsefnum rannsókna því gert er ráð fyrir að hver deild skólans móti sína rannsóknastefnu sem lýsir áherslum og markmiðum í rannsóknum.

Forsendur

Fræðastarf háskóla felst í að leita sannleikans á hverjum tíma með beitingu gagnrýnnar hugsunar og vinnubragða og með fullri virðingu fyrir akademísku frelsi. Sá sem nýtur akademísks frelsis getur leitað þekkingar og tjáð sannfæringu sína án þess að eiga á hættu að það bitni á starfsöryggi hans eða öðrum mikilvægum hagsmunum. Akademískt frelsi felur í sér rétt til að velja viðfangsefni og aðferðir til rannsókna. Það felur í sér rétt og skyldu til að birta niðurstöður opinberlega, hverjar sem þær kunna að vera, svo framarlega sem rannsóknin stenst kröfur faglegs jafningjamats. Akademísku frelsi einstaklings fylgir sú ábyrgð að hann starfi af heilindum og gangist undir fræðileg viðmið og taki þátt í mótun þeirra með sannleikann að leiðarljósi. Akademískt frelsi starfsmanns dregur ekki úr ábyrgð hans á að fara að almennum starfsreglum og siðareglum stofnunarinnar. Rannsóknastefna Háskólans á Hólum er grundvölluð á Magna Charta Universitatum yfirlýsingu evrópskra háskólarektora frá 1988 og sameiginlegri yfirlýsingu rektora íslensku háskólanna frá 2005.

Grundvallarstefna

Háskólinn á Hólum er sjálfstæð stofnun sem lítur á það sem hlutverk sitt að safna, meta og miðla þekkingu á fræðasviðum skólans og stuðla þannig að aukinni farsæld íslensks samfélags. Þess vegna verða rannsóknir og kennsla að vera órjúfanlega tengdir þættir í starfseminni. Skólinn er vettvangur gagnrýnna vinnubragða þar sem allir þættir rannsókna, frá vali viðfangsefna til birtingar niðurstaðna, eru unnir án óeðlilegrar íhlutunar. Skólinn stendur vörð um akademískt frelsi og að í samfélagi skólans geti þrifist gagnrýnin og fagleg umræða um hvaðeina sem leitar á hugann. Háskólinn á Hólum stefnir að því að byggja upp öflugar rannsóknir á sínum fræðasviðum og veita þekkingu til samfélagsins. Til þess að rannsóknir teljist fullgildar þurfa þær að taka til allra ftirfarandi þátta: öflun gagna, gagnrýnnar úrvinnslu og miðlun þekkingar. Faglegt jafningjamat innan hins alþjóðlega fræðasamfélags er megin mælikvarðinn á gæði rannsókna. Þess vegna gerir Háskólinn á Hólum kröfu um að akademískir starfsmenn taki virkan þátt í alþjóðlegu fræðasamfélagi m.a. með birtingu greina í viðurkenndum tímaritum og þátttöku í alþjóðlegum ráðstefnum. Gæði rannsókna má einnig meta með hliðsjón af samfélagslegum áhrifum, s.s. gildi þeirra fyrir viðkomandi atvinnugreinar. Öflugar rannsóknir byggjast á víðtæku alþjóðlegu samstarfi. Þess vegna leitast Háskólinn á Hólum við að byggja upp rannsóknir með því að mynda sem víðtækust rannsóknatengsl við innlendar og erlendar rannsóknastofnanir og atvinnugreinar sem starfa á sviðum skólans. Lögð er áhersla á að rannsóknir skólans styðji við uppbyggingu náms þannig að nemendur hafi alltaf aðgang að nýjustu upplýsingum. Meistara- og doktorsnemar eru mikilvægur hluti af rannsóknasamfélagi skólans og því felst uppbygging rannsókna m.a. í eflingu framhaldsnáms.

Rannsóknir og stjórnun þeirra

Ákvarðanir um tilhögun og viðfang rannsókna byggjast á akademísku frelsi og rétti einstakra akademískra starfsmanna til þess að velja sér viðfangsefni á fræðasviðum skólans. Deildir skólans marka sér stefnu um áherslur í rannsóknum og framfylgja þeim t.d. með mannaráðningum, fjárhagsáætlun og öðrum stuðningi við tiltekin rannsóknasvið. Slík stefnumótun og ákvarðanir eru byggðar á jafningjastjórn akademískra starfsmanna deildanna. Háskólinn á Hólum leitast við að skapa starfsmönnum sem best rannsóknaumhverfi og hvetja starfsmenn til að stunda rannsóknir, sem njóta alþjóðlegrar viðurkenningar. Stöður í kennslu og rannsóknum skulu auglýstar á alþjóðlegum vettvangi og starfsmenn aðeins ráðnir eða hljóta framgang í starfi á forsendum hæfnismats. Við mat á hæfni skal taka mið af áliti óháðra fagaðila utan skólans og upplýsingar um ferli ráðningar og framgangs skulu vera skjalfestar og opinberar. Hlutverk rannsóknasviðs er að efla rannsóknir við skólann og veita aðstoð við gerð umsókna og stýringu rannsóknaverkefna. Rannsóknasvið heldur utan um tölfræði yfir rannsóknir við skólann og sinnir gæðaeftirliti með rannsóknum. Aukin áhersla á fjármögnun háskóla í gegnum samkeppnissjóði kallar á bætta stoðþjónustu sem getur stutt við umsóknavinnu og rekstur rannsóknaverkefna. Því er mikilvægt að rannsóknasvið skólans verði eflt með ráðningu starfsmanns. Háskólinn á Hólum mun stuðla að markvissri notkun á fjármunum skólans til rannsókna með því að gera sérstaklega grein fyrir rannsóknum í fjárhagsáætlun og bókhaldi. Jafnframt notar skólinn gegnsætt bókhaldskerfi sem leyfir mat á framlögum til rannsókna, yfirlit yfir rekstur þeirra og stöðugt aðgengi verkefnisstjóra að bókhaldi verkefna. Skólinn mun styðja við rannsóknir innan skólans með stofnun sérstaks rannsóknasjóðs. Háskólinn á Hólum hvetur alla akademíska starfsmenn til þess að sækja um styrki í innlenda og erlenda samkeppnissjóði. Jafnframt hvetur skólinn akademíska starfsmenn til afreka í rannsóknum með því að tengja árangur í rannsóknum við launakjör og framgang í starfi. Gæði og umfang rannsókna akademiskra starfsmanna eru metin á sömu forsendum og starfssystkina þeirra við aðra háskóla, þ.e. með hliðsjón af fjölda birtra greina í alþjóðlegum og innlendum ritrýndum vísindatímaritum, bókarkafla í viðurkenndri fræðilegri útgáfu, fjölda kynninga á ráðstefnum og umfangi annarrar rannsóknatengdrar starfsemi sem stenst jafningjamat. Einnig má meta gæði rannsókna með hliðsjón af samfélagslegum áhrifum rannsóknanna og framlagi þeirra til þróunar og vaxtar þeirra atvinnugreina sem skólinn styður með annsóknum sínum og kennslu.

Frekari vinnureglur varðandi rannsóknaleyfi, ferðastyrki á ráðstefnur og annað sem tengist rannsóknaumhverfi við skólann er að finna í viðaukum.

Viðauki 1: Reglur um rannsóknamisseri.
Viðauki 2: Reglur um lækkun kennsluskyldu.
Viðauki 3: Reglur vegna ferða erlendis, ferðasjóður.

Þannig samþykkt í háskólaráði Háskólans á Hólum 21.desember, 2015.
Erla Björk Örnólfsdóttir, rektor