Aðstaða Hestafræðideildar

Stærsta byggingin er Brúnastaðir. Í húsinu eru 189 eins hests stíur, og hluti þeirra hentar fyrir stóðhesta. Húsið er fyrst og fremst nýtt undir nemendahesta og hesta í eigu skólans, skólahestana. Í suðurenda Brúnastaða er 800 fermetra reiðhöll, Brúnastaðahöllin. Brúnastaðir voru vígðir árið 2007 og þeir eru reknir af sérstöku eignarhaldsfélagi.
Á háannatímum í verklegri kennslu dugar þetta hesthúsrými ekki til og í „gamla hesthúsinu“ (Skólahesthúsi) er pláss fyrir 24 hross til viðbótar. Áföst því hesthúsi er Skólahöllin, önnur 800 fermetra reiðhöll, sú fyrsta sem reist var á Hólum (árið 1989). Í tengibyggingu eru m.a. járningaaðstaða og lítil kennslustofa.
Þriðja reiðhöllin, Þráarhöllin, er þeirra stærst (1545 m2), og skartar hún m.a. áhorfendastúku fyrir 70 manns.
Í svonefndu Bakkahúsi er verkstæði skólans, aðstaða dýralækna og rannsóknahús Hestafræðideildar. Í rannsóknahúsinu má hýsa allt að 20 tilraunahesta og þar er ýmis búnaður til rannsókna, s.s. háhraða-hlaupabretti.
Starfsmannahesthús (Skeiðmelur) rúmar 34 hesta. Þar hafa starfsmenn skólans pláss til að halda eigin hesta.

Útiaðstaða skólans til þjálfunar og sýninga er mikil. Við skólann er fullbúinn hringvöllur (250m/300m) auk 300 m skeiðbrautar. Við þann völl er 30 m2 dómshús sem einnig er notað sem kennsluaðstaða. Við beinu brautina sem er nærri 500 metrar í heild má einnig finna 200 m upphitunarvöll. Einnig er kynbótavöllur við skólann, sem er 250 m bein braut með víkkun í endum til snúninga. Við þann völl er einnig 30 m2 dómshús og opið reiðsvæði sem er 20x40 metrar. Við bæði hringvöllinn og kynbótavöllinn eru áhorfendabrekkur sem rúma þúsundir áhorfenda.
Reiðvegir liggja um allt athafnasvæði Hestafræðideildar og tengjast m.a. reiðvöllum og fjölbreyttum reiðleiðum svæðisins.

       
Séð yfir athafnasvæði hestafræðideildar. Myndir: Kári Árnason.