Málstefna

Málstefna Háskólans á Hólum

1. gr. Tvíþætt hlutverk háskóla
Í íslenskri málstefnu, samþykktri á Alþingi 12. mars 2009, segir: „Starf háskóla miðar að því að styrkja innviði íslensks samfélags og stöðu þess í alþjóðlegu tilliti." Málstefna Háskólans á Hólum tekur mið af þessu tvíþætta hlutverki.
a) Háskólanum á Hólum ber að rækja skyldur sínar við eigið samfélag varðandi uppfræðslu, sköpun og miðlun þekkingar. Háskólinn gerir þær kröfur til sín og starfsmanna sinna að þeir séu til fyrirmyndar um notkun, kennslu og þróun íslenskar tungu, og efli eftir föngum framlag sitt til íslenskrar menningar.
b) Háskólanum á Hólum ber að styrkja starf sitt í alþjóðlegu samhengi, ástunda samstarf við erlenda háskóla og fræðslustofnanir, kennara- og nemendaskipti og tryggja framlag skólans til fræðimennsku og þekkingarsköpunar á alþjóðlegum vettvangi.
Til að Háskólinn á Hólum geti sem best sinnt starfi sínu ber að leggja á það áherslu að notkun tungumála innan skólans styðji og endurspegli þetta tvíþætta hlutverk háskólans. Íslenska er tungumál skólans en vald á öðrum málum verður einnig að vera til staðar.

2. gr. Skyldur við eigið samfélag
Háskólinn á Hólum á sér langa sögu sem samofin er íslenskri menningarsögu. Hólar í Hjaltadal eru forn sögustaður sem öldum saman hefur fóstrað kennslu, sköpun og útgáfu á íslensku. Saga skólans frá 1106 er samfellt dæmi um mikilvægi menntunar fyrir íslenska menningu og tilkoma prentverksins á Hólum á 16. öld markaði tímamót fyrir íslenska tungu, samhliða þeirri málstefnu sem Guðbrandur Þorláksson biskup og Arngrímur Jónsson lærði lögðu áherslu á í starfi sínu á Hólum á þessum tíma. Því ber háskólanum söguleg skylda til að hlúa að íslensku máli og menningu.
Háskólinn á Hólum leitast við að efla notkun íslenskrar tungu á sem flestum sviðum innan skólans. Nemendur hákólans koma víða að en kennsla í grunnnámi fer þó að mestu fram á íslensku. Til dæmis hefur um árabil allt að þriðjungur nemenda í hestafræði verið útlendingar sem allir hafa lært íslensku til að geta stundað námið. Í námskeiðum sem kennd eru á ensku er lögð áhersla á að íslenskir nemendur tileinki sér fræðiheiti á íslensku og að þeir verði færir um að tjá sig um námsefnið á íslensku. Lögð er áhersla á að málfar í lokaverkefnum nemenda sé vandað og hnökralaust.

3. gr. Íslenska opinbert tungumál
Íslenska er því opinbert tungumál Háskólans á Hólum enda segir í lögum nr. 61/2011 um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls: „Íslenska er mál Alþingis, dómstóla, stjórnvalda, jafnt ríkis sem sveitarfélaga, skóla á öllum skólastigum og annarra stofnana sem hafa með höndum framkvæmdir og veita almannaþjónustu." Samkvæmt því skulu öll skjöl sem skólinn lætur frá sér fara teljast vera í frumriti á íslensku. Útgáfur á öðrum tungumálum teljast þýðingar og skal íslenska útgáfan gilda ef málfarslegur ágreiningur kemur upp. Fundir innan stjórnsýslunnar skulu að jafnaði fara fram á íslensku en fari þeir fram á ensku eða öðru erlendu tungumáli skal þess getið sérstaklega í fundarboði. Ætlast er til að fastráðnir erlendir kennarar leggi sig fram um að læra íslensku. Að sama skapi er ætlast til að erlendir nemendur geti stundað nám sitt á íslensku. Háskólinn á Hólum stefnir að því að bjóða erlendum kennurum og nemendum upp á metnaðarfulla íslenskukennslu í samstarfi við aðra skóla.

4. gr. Öflug alþjóðleg starfsemi
Háskólinn á Hólum tekur virkan þátt í alþjóðlegri starfsemi. Í slíku starfi gegnir enskan veigamiklu hlutverki. En enskan er ekki eina erlenda málið sem starfsfólk og nemendur skólans nota. Í háskólanum starfa og nema einstaklingar sem hlotið hafa menntun erlendis, utan hins enskumælandi heims, og hafa margvísleg tungumál að móðurmáli. Slík kunnátta er háskólanum afar dýrmæt og hvetur til fjölbreyttari starfsemi á alþjóðavettvangi en enskan ein getur leitt af sér.

5. gr. Málfar og gæðastefna
Lifandi háskóli leitast við að vanda sig. Hluti gæðastefnu háskóla er að starfsfólk skólans tjái sig á skiljanlegu máli, í skólanum og á vegum skólans; fyrir fólkið í landinu og fyrir fræðaheiminn í heild. Háskólinn á Hólum leitast við að bjóða kennurum skólans upp á víðtækan, málfarslegan stuðning, hvort sem er á íslensku eða erlendum málum, eða til þýðinga milli íslensku og annarra mála. Slíkur stuðningur verður þó ef til vill best veittur í samstarfi við aðra opinbera háskóla.

6. gr. Móðurmálssjóður Hólaskóla
Háskólinn á Hólum mun endurvekja Móðurmálssjóð háskólans sem stofnaður var af nemendum og kennurum bændaskólans á 100 ára afmæli Jónasar Hallgrímssonar 16. nóvember 1907 til minningar um þýðingu Jónasar fyrir þroska íslenskrar tungu. Tilgangur sjóðsins var og mun verða að „glæða áhuga á móðurmáli voru og hvetja nemendur skólans og aðra, er náð verður til, til að afla sér sem beztrar þekkingar á því, svo að þeir verði sem færastir til að fara vel með það í ræðu og riti.“

7. gr. Ábyrgð, umsjón og framkvæmd
Rektor beri ábyrgð á málstefnu Háskólans á Hólum en deildir hafa umsjón með framkvæmd hennar.

Samþykkt í háskólaráði, 10. maí 2012.