Leiðsögn um íslenska náttúru fyrir erlent ferðafólk: Hvað með náttúruvernd?

Anna Vilborg Einarsdóttir, annar höfundur greinarinnar.
Anna Vilborg Einarsdóttir, annar höfundur greinarinnar.

Náttúra Íslands er undir álagi vegna aukinnar ferðamennsku. Leiðsögumenn eiga í miklum og mikilvægum samskiptum við ferðafólk. Þeir geta með hæfni, bakgrunni og reynslu breytt ferð með leiðsögn frá því að vera tæknileg útfærsla milli náttúruskoðunarstaða í ógleymanlega náttúruupplifun.

Nýlega birtist grein í tímaritinu Scandinavian Journal of Hospitality and Tourism sem beri heitið enska heitið Guiding in a nature destination. Greinin byggir á rannsókn sem gerð var sumarið 2017 á Suðurlandi, Norðurlandi og hálendinu.

Í greininni varpa Anna Vilborg Einarsdóttir lektor við Ferðamáladeild Háskólans á Hólum og Guðrún Helgadóttir prófessor við Háskólann í Bö í Suður Noregi ljósi á hlutverk leiðsögumanna á Íslandi og framlag þeirra til náttúruverndar. Aðferðum þátttökuathugunar var beitt í dagsferðum með leiðsögumanni þar sem rannsakandi fyllti inn í ítarlegan gátlista. Auk þess voru hálfskipulögð viðtöl tekin við aðra leiðsögumenn. Veganesti til starfans t.d. í náttúruvernd var skoðað út frá opinberum gögnum, gögnum úr leiðsögunámi og frá ferðaþjónustufyrirtækjunum.

Markmið rannsóknarinnar var að afla þekkingar um starf leiðsögumanna í því augnamiði að öðlast skilning á hlutverki þeirra í starfi um leið og sjónum er beint að framlagi þeirra til náttúruverndar í ferðum á fjölsótta náttúruskoðunarstaði.

Niðurstöður benda til að leiðsögumenn séu gestrisnir, þeir fræði ferðafólkið um land og þjóð og hvetji til varkárni á nátttúruskoðunarstöðum. Umfjöllun um náttúru landsins tekur mest mið af sýnilegum jarðfræðilegum fyrirbærum og hlutur náttúruverndar rýr. Rannsóknin sýnir að ýmsu er ábótavant varðandi leiðsögn um náttúru og náttúruvernd fyrir ferðafólk í skipulögðum ferðum.

Anna Vilborg Einarsdóttir og Guðrún Helgadóttir.

Hægt er að nálgast greinina með því að smella á myndina: