Fiskeldis- og fiskalíffræðideildin sem aðili að Bridges

Háskólinn á Hólum er, ásamt fleiri skólastofnunum og fiskeldisfyrirtækjum á Íslandi, aðili að Evrópusamstarfsverkefninu Bridges. Nafn verkefnisins stendur fyrir Blue Region Initiative for Developing Growth, Employability and Skills in The Farming of fin-fish og er verkefnið styrkt af Erasmus, menntaáætlun Evrópusambandsins.
Markmið verkefnisins er, í stuttu máli, að stuðla að því að menntastofnanir á sviði fiskeldis muni gegna lykilhlutverki sem nokkurs konar miðstöðvar þekkingar, færni, nýsköpunar og frumkvöðlastarfsemi á heimsmælikvarða.
Bridges verkefnið er til fjögurra ára, það hófst í nóvember árið 2020 og lýkur árið 2024. Styrkurinn sem fékkst til verkefnisins er sá stærsti sem Erasmus hefur veitt til þessa skólastigs á norðurlöndunum og er á meðal stærstu styrkja sem veittir hafa verið innan þess hluta menntaáætlunarinnar sem kallast Centers of Vocational Excellence, og mætti útleggja á íslensku sem Miðstöðvar framúrskarandi starfsnáms.
Eitt af meginmarkmiðum Bridges verkefnisins er að stuðla að auknum tengslum starfsmenntunar við iðnaðinn, meðal annars með kortlagningu þekkingar, hæfni og þarfa, sem aftur stuðlar að auknum gæðum og skilvirkni starfsnámsins. Í því samhengi er unnið að endurskoðun og frekari uppbyggingu verknáms við fiskeldis- og fiskalíffræðideildar Háskólans á Hólum. Í því samhengi má nefna náms- og skoðunarferð nemenda fiskeldisdeildar sem farin var á dögunum og er liður í uppbyggingunni. Ferðin mæltist vel fyrir af nemendum, starfsfólki og gestgjöfum og fréttinni gerð góð skil hér.
Fiskeldi er í gífurlegum vexti hér á landi þessi misserin og þörfin fyrir fólk með þekkingu á því sviði hefur því aldrei verið meiri. Tækniþróunin er hröð og kröfur um gæði og sjálfbærni í matvælaframleiðslu eykst í takt við tíðarandann. Háskólinn á Hólum leggur metnað sinn í að fylgja þessari þróun.
Fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum er alþjóðleg miðstöð rannsókna og kennslu í sjávar- og vatnalíffræði, fiskeldi og fiskalíffræði. Deildin stuðlar að faglegri uppbyggingu fiskeldis í anda sjálfbærrar þróunar og kemur víða að þróunarstarfi á sínum fræðasviðum.
Deildin á í formlegu samstarfi um kennslu og rannsóknir við fjölda háskóla og rannsóknastofnana bæði hérlendis og erlendis. Nemendur taka virkan þátt í fjölbreyttum rannsóknar- og þróunarverkefnum sem sérfræðingar deildarinnar vinna að og fá þannig að kynnast af eigin raun verklagi og nýjungum á þessum sviðum.
Fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum býður upp á fjölbreytt nám tengt fiskeldi, nýtingu auðlinda og sjávar- og vatnalíffræði. Sérfræðingar deildarinnar leiðbeina fjölmörgum doktorsnemumsem skráðir eru við aðra háskóla hérlendis sem og erlendis frá, auk þess koma hingað fjöldi erlendra nemenda í tímabundin rannsóknarverknaám þar sem sérfræðingar deildarinnar leiðbeina þeim. Í námi og kennslu við Fiskeldis- og fiskalíffræðideild er lögð áhersla á mikil og góð tengsl við atvinnulífið, sem og aðrar mennta- og fræðslustofnanir bæði innalands og erlendisjafnframt er lögð áhersla á öfluga tengingu náms og rannsókna.

Höfundur:
Ástríður Einarsdóttir
Verkefnastjóri við fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum