Fornleifarannsóknir í Hjaltadal

Guðný Zoëga og John Steinberg
Guðný Zoëga og John Steinberg

Sumrin 2021 og 2022 hafa farið fram fornleifarannsóknir í Hjaltadal á vegum Háskólans á Hólum og University of Massachusetts Boston (UMass Boston). Rannsóknin er framhald rannsókna á kirkjusögu, byggð og byggðaþróun sem fóru fram í Skagafirði undanfarna tvo áratugi. Rannsóknunum stjórna Guðný Zoëga fornleifafræðingur og lektor á ferðamáladeild og John Steinberg fornleifafræðingur frá UMass Boston. Auk þeirra komu átta erlendir og sex íslenskir nemar að verkefninu. Rannsóknarráð Bandaríkjanna (National Science Foundation) styrkti verkefnið um $297.000 til þriggja ára en því lýkur formlega sumarið 2023. Tilgangur rannsóknanna er að skoða aldur og þróun elstu byggðar í Hjaltadal í samhengi við stofnun og þróun Hólastaðar og biskupsstólsins.
Rannsóknin fer fram með borkjarnatöku á hverri jörð og ef kjarnar gefa til kynna forna byggð eru minni könnunarskurðir teknir í gamla öskuhauga. Þannig fæst góð mynd af umfangi byggðar, hvenær bæir byggðust, hvort þeir hafa alltaf staðið á sama stað og þar sem svo háttar hvenær þeir fóru í eyði. Úr öskuhaugunum fást sýni til frekari greininga, til dæmis hvað menn lögðu sér til munns og nákvæmari aldursgreiningar.
Sumarið 2021 voru jarðirnar Hólar og Hof teknar fyrir en samspil byggðar þar er forvitnilegt þar sem sagan segir að Hof sé landnámsbýli og Hólar byggist út úr landi jarðarinnar.
Í sumar fóru svo fram rannsóknir á jörðunum Neðra-Ási, Víðinesi, Reykjum, Hvammi, Hrafnhóli, Hlíð (Hrafnsstöðum) og Kálfsstöðum.
Þessi dægrin er verið að vinna úr niðurstöðum rannsóknanna en nú þegar er margt forvitnilegt að koma í ljós. Sem dæmi má nefna að byggð fremst í dalnum hefur snemma orðið fyrir ýmsum skakkaföllum af völdum skriðufalla, nokkuð sem síðar er nefnt í skriflegum heimildum. Á Neðra-Ási komu fram ummerki um soðholur eða seyði og skálabyggingu frá víkingaöld. Kirkjugarður frá frumkristni sem búið var að slétta í tún á Kálfsstöðum var staðsettur með jarðsjármælingatækjum og borkjarnar staðfestu grafir í garðinum. Næsta sumar er ætlunin að taka fyrir þá bæi sem eftir eru í dalnum. Þannig fæst á endanum heildstæð mynd af því hvernig Hjaltadalur byggðist, hvort og hvernig byggð þróaðist eftir að Hólastaður styrktist. Einnig hvort greina má annarskonar byggðaþróun í dalnum en á öðrum svæðum sem rannsökuð hafa verið í Skagafirði.