Meistaravörn í ferðamálafræðum

Á dögunum varði Deisi Trindade Maricato meistararitgerð sína í ferðamálafræðum við Háskólann á Hólum. Titill ritgerðarinnar er „The Interdisciplinarity of Tourism Education as an Opportunity for Emancipation” eða „Þverfagleg nálgun menntunar í ferðamálafræðum sem tækifæri til aukinnar frelsisvitundar“. Skemmst er frá því að segja að Deisi stóðst vörnina með glæsibrag og mun útskrifast frá Hólum þann 7. október n.k.
Markmið rannsóknar Deisiar var að skoða og þróa kennsluhætti á háskólastigi, sem ýtt gætu undir sjálfsrýni, valdeflingu og vitund nemenda um þann veruleika sem þeir búa í/við. Rannsóknin byggir á kenningum braselíska kennslufræðingsins Paulos Freire sem taldi menntun vera mikilvægasta lýðræðislega verkfærið við að þróa skilning, sjálfstæði og frelsisvitund einstaklingsins (e. Freirean Pedagogical Theory). Í verkefninu tók Deisi fyrir námskeið í útivistarfræðum á meistarastigi við Ferðamáladeild HH, sem fram fór á haustönn 2021. Hún beitti aðferðum tilviksrannsóknar við að greina kennsluhætti námskeiðsins og sýna fram á að gagnrýnin kennslufræði getur hjálpað nemendum við að ígrunda eigið nám og efla gagnrýna hugsun. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að beiting gagnrýnna kennsluhátta, í anda kenninga Freirea, við kennslu í ferðamálafræðum geti verið umbreytandi, þar sem það auki vitund nemenda um stöðu sína í samfélaginu og þar með skuldbindingu þeirra sem fagaðila innan ferðamála.

Leiðbeinandi Deisiar var Jessica Aquino, lektor í Ferðamáladeild. Í meistaranefndinni sat auk Jessicu Laufey Haraldsdóttir lektor í sömu deild. Prófdómari var Gunnar Þór Jóhannsson, prófessor í ferðamálafræðum við Háskóla Íslands og formaður dómnefndar var Ingibjörg Sigurðardóttir, lektor og deildarstjóri í Ferðamáladeild Háskólans á Hólum.