Mikil aukning á fjölda nemenda í fiskeldisnámi við Háskólann á Hólum

Bjarni Kristófer Kristjánsson prófessor 
við Fiskeldis- og fiskalíffræðideild í viðtali við Kristjá…
Bjarni Kristófer Kristjánsson prófessor
við Fiskeldis- og fiskalíffræðideild í viðtali við Kristján Má Unnarsson.
Sigurjón Ólason myndatökumaður er á bak við myndavélina.

Fjallað var um þá miklu aukningu sem orðið hefur í nemendafjölda í fiskeldi við Háskólann á Hólum í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær, 20. sept. Umfjöllunina er hægt að sjá á Vísir.is þar er fjallað um þann mikla fjölda nemenda í fiskeldisnáminu við skólann, en þar stunda núna um áttatíu manns í fagingu.
Fiskeldi á Hólum á sér langa sögu, árið 1979 var hlutafélagið Hólalax stofnað og hófst starfsemin ári síðar. Stofnun Hólalax var einn liður í endurreisn Hólaskóla sem seinna varð Háskólinn á Hólum. Árið 1989 hófst markviss uppbygging rannsókna og þróunarstarfs í fiskeldi og fiskalíffræði hjá skólanum. Þá fékkst fjármagn og heimild frá ríkinu til að Hólaskóli tæki að sér kynbætur á bleikju. Árið 1991 gaf þáverandi landbúnaðarráðherra, Halldór Blöndal út yfirlýsingu um að Hólaskóli skyldi verða miðstöð silungarannsókna og bleikjukynbóta á Íslandi. Þessi ákvörðun skapaði Hólum og Hólaskóla sérstöðu á sviði fiskeldis og hefur reynst skólanum afar mikilvægur í þeirri vegferð að verða háskóli og miðstöð fiskeldisrannsókna á Íslandi. Í dag er Háskólinn á Hólum eini skólinn á Íslandi sem kennir fiskeldi á háskólastigi.
Mikil aukning hefur átt sér stað í nemendafjölda hjá Fiskeldis- og fiskalíffærðideild Háskólans á Hólum samfara miklum vexti í fiskeldi á Íslandi. Það er mikilvægt að byggja undir þennan mikla vöxt í fiskeldi með eflingu náms og rannsókna á háskólastiginu og þar er Háskólinn á Hólum í forystuhlutverki. Nýverið afhenti Fisk Seafood háskólanum húsnæði Hólalax í Hjaltadal undir starfsemi Fiskeldis- og fiskalíffræðideildar en áætlað er að nýtt kennslu- og rannsóknahúsnæði muni rísa á Sauðárkróki á næstu tveimur árum þar sem aðgangur verður bæði að fersku vatni og sjó.
Húsnæðið á Sauðárkróki mun ekki einungis gera ráð fyrir kennslu- og rannsóknum í fiskeldi á hæsta gæðastigi heldur einnig námi og rannsóknum í þörungarækt og öðru lagareldi. Framtíð Háskólans á Hólum er því björt og tækifærin endalaus.