Náttúra og menning – stjórnun ferðaþjónustu

Dr. Jessica Faustino Aquino er lektor við Ferðamáladeild Háskólans á Hólum. Hún hefur um árabil stundað rannsóknir á náttúrutengdri ferðaþjónustu m.a. í tengslum við selaslóðir á Vatnsnesi. Í nýútkominni grein fjallar Jessica um hvernig nýta má ólíkar kenningar og aðferðir til að fræða fólk um náttúru, dýralíf og menningu og hvernig nýta má hugmyndafræðina við stjórnun og þróun ferðaþjónustu.

Í verkefninu sem greinin byggir á, er leitað leiða til að skapa náttúrutengda upplifun með jákvæðum og siðferðislega ábyrgum hætti. Áhersla er lögð á að náttúrutengd ferðamennska hafi jákvæð áhrif á alla sem henni tengjast.

Rannsóknin var unnin í tengslum við og með þátttöku í námskeiði sem Jessica kenndi við Háskólann í Lapplandi. Meginniðurstaða verkefnisins var að mikilvægt væri að hvetja til frekari þekkingaröflunar á sviði umhverfisheimspeki utan hefðbundins kennsluumhverfis í skólastofu.

Grein Jessicu ber heitið Teaching wildlife tourism management: reflections on culture, nature, and wildlife og birtist í ritrýnda tímaritinu Journal of Teaching in Travel & Tourism. Hægt er að nálgast greinina á https://www.tandfonline.com/eprint/SPVVMIBXDERYRIXYYCEA/full?target=10.1080/15313220.2021.2016553