Nemendatengt fræðastarf í Hestafræðideild í janúar til apríl 2024

Nemendatengt fræðastarf í Hestafræðideild í janúar til apríl 2024

Við sögðum nýlega frá kynningum á lokaverkefnum nemenda á 3ja ári í Hestafræðideild.

BS-námið

Nú á dögunum náðist sá áfangi að það fékkst birt fyrsta ritrýnda vísindagreinin úr einu slíku lokaverkefni sem var unnið af Sigríði Vöku Víkingsdóttur sem útskrifaðist vorið 2023 og var leiðbeinandi hennar prófessor Sveinn Ragnarsson. Ljóst er að gæðin á sumum þeirra rannsókna sem nemendur á BS-stigi gera uppfylla skilyrði til opinberrar birtingar og er um leið ákveðinn gæðastimpill fyrir námið í deildinni. Vísindagreinin er í opnum aðgangi og aðgengileg á eftirfarandi slóð https://www.mdpi.com/2076-2615/14/8/1211. Þessi rannsókn skoðaði hvort hægt væri að lengja áttíma hesta á húsi með því að fóðra í heynet eða heybolta, samanborið við að gefa heyið í stall eða á stíugólfið. Meginniðurstaðan var að hestarnir voru lengur að éta úr heynetinu og heyboltanum miðað við notkun á hinum gjafaaðferðunum. Að meðaltali lengdist áttíminn um 12 mín/kg þurrefnis heys á dag.

Mynd 1. Samanburður á fjórum fóðrunaraðferðum fyrir hesta á húsi, mynd tekin úr eftirlitsmyndavél.

Doktorsnámið

Við höfum áður sagt frá því að við erum í samstarfsverkefni við Sænska landbúnaðarháskólann í Uppsala (SLU) að rannsaka áhrif af þyngd knapa á hesta. Að verkefninu vinnur doktorsneminn Denise Söderroos. Sem hluti af hennar verkefni birtist snemma á þessu ári vísindagrein sem ber heitið „Líkamsmál íslenskra hrossa sem hafa tvenns konar notagildi og tengsl þeirra við hæfileika og notagildi“. Vísindagreinin er einnig aðgengileg í fullri lengd í opnum aðgangi og má nálgast hana hér https://brill.com/view/journals/cep/20/1/article-p35_4.xml

Rannsóknin gekk útá að bera saman líkamsmál og breidd á baki hjá ferðahestum og kynbótahrossum. Það sem kom í ljós var að ákveðinn munur reyndist vera á líkamsmálum, bakbreidd og holdafari þessara tveggja hópa hrossa. Í rannsókninni voru jafnframt skoðuð tengsl á milli notagildis ferðahestanna, sem metið var með spurningum til eigenda, og líkamsmálanna sem voru mæld.

Mynd 2. Bakbreidd ferðahesta og kynbótahrossa var mæld í rannsókninni.

Meistaranámið

Í byrjun febrúar var haldið fulltrúaþing Alþjóðasamtaka íslenska hestsins (FEIF) í Lúxemborg, þar sem farið var yfir reglubreytingar og lagðar línur fyrir komandi tímabil. Eitt stórt umræðuefni á þinginu varðaði hugtakið SLO (e. „Social license to operate“), sem snýst um að hvers kyns starfsemi eða atvinnugrein þarf að sýna fram á að hún uppfylli samfélagslegar kröfur til að eiga sinn tilverurétt. Þetta varðar hestasamfélagið sem þarf að geta sýnt fram á að það sé siðferðislega réttlætanlegt að nota hestinn á þann hátt sem gert er. Í tengslum við þetta er eitt mikilvægt umræðuefni knapaþyngd og burðargeta hrossa. Við Háskólann á Hólum er ekki aðeins doktorsnemi að rannsaka þetta viðfangsefni heldur einnig Meistaraneminn Johannes Amplatz.
Hann fór á Feif-þingið í febrúar og kynnti frumniðurstöður úr sinni meistararannsókn sem hann og leiðbeinandi hans Guðrún Jóhanna Stefánsdóttir dósent, gerðu á Heimsmeistaramóti íslenska hestsins í fyrra sumar. Gögnunum sem var safnað er meðal annars ætlað að skoða hver er líkamsþyngd knapa og hesta sem keppa á hæsta stigi í Íslands-hestamennskunni. Mikill áhugi var á viðfangsefninu á þinginu og góðar umræður sköpuðust í kjölfarið.

Mynd 3. Johannes skráir líkamsþunga hests á Heimsmeistaramótinu síðasta sumar.