Ný rannsókn um viðhorf til stjórnunar villtra dýra

Nýlega kom út ný grein sem nefnist „Gender difference in biospheric values and opinions on nature management actions: The case of seal watching in Iceland“. Greinin birtist í tímaritinu Ocean & Coastal Management og er samstarfsverkefni Cécile M. Chauvat, sem starfar hjá Náttúrustofu Norðurlands, dr. Söndru M. Granquist sem er forstöðumaður Selarannsókna hjá Selasetrinu og starfsmaður Hafrannsóknastofnunar og dr. Jessicu Aquino, lektors við ferðamáladeild Háskólans á Hólum.

Um greinina

Rannsóknin var framkvæmd í gegnum spurningakönnun (n = 597) sem lögð var fyrir á þremur stöðum á Norðvesturlandi. Rannsóknin byggir einnig á fyrri rannsókn á þessu viðfangsefni (Chauvat et al., 2021). Við greiningu var lögð áhersla á að rannsaka kynjamun varðandi viðhorf til þátta sem lúta að stjórnun selaskoðunar.

Þegar kyn voru borin saman kom í ljós að konur höfðu sterkari skoðanir á viðfangsefninu og, voru meðvitaðri um möguleg áhrif af mannavöldum á seli, töldu í meira mæli að reglur væru gagnlegar til að draga úr áhrifum af fólki og voru jákvæðari gagnvart flestum stjórnunaraðgerðum sem lagðar voru til í spurningalistanum. Því er haldið fram að frekari skilningur á viðhorfum kynjanna til umhverfisverndar geti verið mikilvægur þáttur í tengslum við sjálfbæra stjórnun ferðaþjónustu á villtum dýrum. Jafnframt að rannsóknin geti stutt við stjórnun og eftirlit með villtum dýrum.

 

Hægt er að nálgast greinina ókeypis hér til 3 mars nk.