Sleipnisbikarinn í varðveislu á Hólum

Gunnar Þorgeirsson og Hólmfríður Sveinsdóttir við undirritun samningsins.
Gunnar Þorgeirsson og Hólmfríður Sveinsdóttir við undirritun samningsins.

Sl. föstudag undirrituðu Hólmfríður Sveinsdóttir rektor Háskólans á Hólum og Gunnar Þorgeirsson formaður Bændasamtaka Íslands samning þess efnis að Hólaskóli varðveiti Sleipnisbikarinn fyrir bændasamtökin á milli landsmóta. Sleipnisbikarinn er í eigu Bændasamtaka Íslands og er æðsta viðurkenning sem veitt er í hrossarækt en bikarinn hlýtur sá stóðhestur sem efstur stendur í heiðursverðlaunum fyrir afkvæmi á landsmóti. Undirritun framgreinds samkomulags fór fram í húsakynnum Söguseturs ísl. hestsins hér á Hólum.
Þess má einnig geta að Sleipnisbikarinn er samofinn hrossaræktasögu íslands og var fyrst afhentur á landbúnaðarsýningu í Reykjavík árið 1947 og í framhaldinu hefur hann síðan verið veittur á Landsmótum hestamanna frá árinu 1950. Sleipnisbikarinn á sér reyndar mun miklu lengri sögu en hér hefur verið tíunduð, hann var smíðaður í London á valdatíma Viktoríu drottningar sem var 1837-1901. Á bikarnum er skjöldur, á honum er áletrun sem gefur til kynna að hann hafi verið notaður sem verðlaunagripur árið 23. apríl 1857 í Malton kappreiðum í norðanverðu Yorkshire-héraði á Englandi. Í lok seinni heimsstyrjaldar var bikarinn seldur á uppboði í London og var kaupandinn íslenskur, líklega útgerðamaður sem flutti bikarinn með sér til Íslands og fékk það staðfest að bikarinn sé mjög verðmætur þar sem um mikla völdundarsmíð sé að ræða auk þess gerður úr fjórum kílóum af hreinu silfri. Síðar varð úr að eigandi bikarsins óskaði eftir að íslenska ríkið skyldi eignaðist gripinn og keyptu Búnaðarfélag Íslands og íslenska ríkið bikarinn og skiptu kostnaðinum jafnt á milli sín. Búnaðarfélag Íslands sem seinna varð að Bændasamtökum Íslands hefur alla tíð varðveitt og annast bikarinn, frá því að hann var fyrst afhentur 1947 og allar götur síðan frá fyrsta landsmóti hestamanna sem haldið var á Þingvöllum 1950 til dagsins í dag.
Sleipnisbikarinn er farandbikar og þeir sem hljóta hann fá að hampa gripnum við hátíðlega athöfn á Landsmóti en fá síðan aðeins að eiga mynd af bikarnum til varðveislu. Að verðlaunaathöfninni lokinni er bikarinn fluttur aftur á sinn varðveislustað þar sem hann er geymdur á öruggum stað í læstum skáp. Bændasamtök Íslands hafa nú ákveðið í samráði við hlutaðeigandur að gera samkomulag við Háskólann á Hólum um að skólinn taki nú við umsjón og varðveislu bikarsins til framtíðar. Háskólinn á Hólum er opinber miðstöð kennslu og rannsókna í hestafræðum þar sem menntun reiðkennara og hestaþjálfara framtíðarinnar fer fram.
Sleipnisbikarinn verður varðveittur og til sýnis í sal Söguseturs íslenska hestsins hér á Hólum og er það einstaklega viðeigandi að fá að geyma og hafa til sýnis þá gersemi sem bikarinn er innan um sýninguna "Uppruni kostanna" þar sem mörg ræktunarhross landsins eru kynnt og hafa hlotið Sleipnisbikarinn.
Við hjá Háskólanum á Hólum erum djúpt snortin og stolt af því trausti og virðingu sem okkur er sýnd með því að fá að varðveita Sleipnisbikarinn hjá okkur og sjá til þess að flestir fái að njóta að berja hann augum í sýningasalnum.

Nánari umfjöllun er að finna á heimasíðu Bændasamtaka Íslands og Feyki.