Þverfagleg vísindagrein um félagsleg og vistfræðileg tengsl villtrar og alinnar bleikju, og ferðaþjónustu á tímum loftslagsbreytinga.

Ljósmynd: Laufey Haraldsdóttir
Ljósmynd: Laufey Haraldsdóttir


Nýlega kom út grein um áhrif lofslagsbreytinga á vistkerfi norðurslóða og tengsl við afkomu villtrar bleikju, framtíðarhorfur í fiskeldi og áhrif á þjónustu- og upplifunarhagkerfi ferðaþjónustu.
Greinin er afurð samstarfs fræðimanna við Háskólann á Hólum, Háskólann í Suð-Austur Noregi og Háskólann í Tromsö. Þar sameinast þekking vísindamanna á sviði loftslagsmála, ferskvatnsvistfræði, fiskeldis- og ferðamálafræða. Verkefnið var styrkt Arctic Research and Studies - Norðurslóðafræði, sem styrkir tvíhliða samstarf Íslands og Noregs.

Markmið greinarinnar er að tengja nýjustu þekkingu úr náttúru- og félagsvísindum og á þeim grunni að setja fram rökstuddar framtíðarsviðsmyndir um félagsleg og vistfræðileg áhrif loftslagsbreytinga á norðlægar slóðir, með bleikju (Salvelinus alpinus) sem raundæmi.
Meðan algengast er að kastljósinu sé beint að áhrifum ferðamennskunnar á norðurslóðir í formi ágangs og mengunar, beinir þessi grein sjónum að áhrifum loftslagsbreytinga á lífkerfi vatna á svæðinu, á aðlögunarhæfni bleikjunnar og áhrif þessarar þróunar á fæðukeðjuna og mikilvægar atvinnugreinar Norðursins, s.s. fiskeldi og ferðaþjónustu.

Bleikja er hefðbundin fæða á norðurhveli jarðar og hefur gegnt mikilvægu hlutverki í ímyndarsköpun áfangastaða í sívaxandi ferðaþjónustu á norðurslóðum. Þar er hún kynnt sem hefðbundinn hluti af menningu og efnahagskerfi norðursins. Hinn villti stofn hefur hins vegar dregist saman undanfarin ár, að hluta til vegna loftslagsbreytinga. Það hefur aftur áhrif á ferskvatnsveiði sem er vinsæl afþreying í ferðaþjónustu og ekki síður neyslu bleikjunnar, þar sem eldisfiskur hefur tekið við af þeim villta á diskum ferðamanna.

Niðurstöður gera ráð fyrir að hlutverk bleikjunnar sem menningar- og náttúruarfleifð norðurslóða muni haldast og jafnvel aukast til framtíðar. Gera má ráð fyrir vaxandi eftirspurn eftir bleikju á markaði sem krefst í auknum mæli staðbundinnar og hollrar fæðu sem framleidd er við sjálfbærar aðstæður. Höfundar kalla eftir auknu þverfaglegu samstarf náttúru- og félagsvísindamanna við rannsóknir á áhrifum loftslagsbreytinga á bleikju, fiskeldi og ferðaþjónustu.

Greinina má nálgast í opnun aðgangi á slóðinni hér fyrir neðan: https://www.frontiersin.org/articles/10.3389/fsufs.2021.654117/full?&utm_source=Email_to_authors_&utm_medium=Email&utm_content=T1_11.5e1_author&utm_campaign=Email_publication&field=&journalName=Frontiers_in_Sustainable_Food_Systems&id=654117