Akademía íslenska hestsins

Þann 16. maí var haldinn fyrsti fundur um stofnun Akademíu íslenska hestsins (AIH) að Hólum í Hjaltadal. Stofnaðilar Akademíunar eru Háskólinn á Hólum, Landbúnaðarháskóli Íslands og Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Skilgreint hlutverk Akademíunnar er að efla rannsóknir tengdar íslenska hestinum.
Samstarfið verður byggt á rannsóknaráherslum háskólastofnananna sem að verkefninu standa með uppbyggingu og útvíkkun í huga. Með stofnun Akademíu íslenska hestsins verður tekin upp nánari samvinna um doktors- og meistaranám en einnig verður alþjóðleg samvinna aukin sem og sókn íslenskra háskóla á alþjóðlegum vettvangi. Með því má auka gæði rannsókna og möguleika á styrkjum úr samkeppnissjóðum. Allt þetta mun styrkja samkeppnishæfni háskólanna sem að verkefninu koma og efla rannsóknir á hestum og hestamennsku.

Stýrihópur verkefnisins er skipaður tveimur fulltrúum frá hverri stofnun og verkefnisstjóra.
Í stýrihópnum eru fyrir Háskólann á Hólum þau Guðrún Stefánsdóttir og Víkingur Gunnarsson, fyrir Landbúnaðarháskóla Íslands eru Sigríður Bjarnadóttir og Þorvaldur Kristjánsson og fyrir Keldur eru Charlotta Oddsdóttir og Vilhjálmur Svansson. Verkefnisstjóri er Sveinn Ragnarsson.

Framundan hjá AIH er ítarlegt stöðumat sem og þarfagreining þar sem samtal og samráð við hagaðila, starfsmenn, sérfræðinga mun vera í forgrunni. Rannsóknainnviðir, rannsóknasamstarf o.fl. fyrir hverja stofnun verða einnig skilgreind. Stofnskjöl AIH munu liggja fyrir á haustdögum.
Forsenda verkefnisins er styrkur úr samstarfssjóði háskóla sem settur var á laggirnar af Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.