Áskell Heiðar Ásgeirsson, lektor við ferðamáladeild Háskólans á Hólum, flytur erindi í Þjóðminjasafni Ungverjalands

Áskell Heiðar Ásgeirsson lektor við ferðamáladeild Háskólans á Hólum var á dögunum boðið til Búdapest af Þjóðminjasafni Ungverjalands til að halda erindi á ráðstefnu um notkun á tækni í safnastarfi. Ásamt Heiðari var Freyja Rut Emilsdóttir framkvæmdastjóri 1238 á Sauðárkróki boðið til ráðstefnunnar til að halda erindi. Freyja hefur einnig starfað við ferðamáladeildina sem stundakennari um árabil.

Áskell Heiðar er fyrrverandi framkvæmdastjóri 1238 og hefur því víðtæka reynslu að notkun á tækni í miðlun sögunnar til gesta á sýningum og söfnum. Einkum er það notkun á sýndarveruleika til að endurskapa liðna atburði sem vakti athygli ráðstefnugesta. Ráðstefnan var fjölsótt en til hennar var boðið erlendum gestum þar sem hún átti 10 ára afmæli og voru það aðilar frá Finnlandi og Holllandi, auk Íslands sem allir fjölluðu um reynslu sína af því að nota tæknilausnir til að miðla áhugaverðum sögum úr fortíðinni.

Á ráðstefnunni komu einnig fram mjög áhugaverðir hlutir varðandi notkun á gervigreind í safnastarfi framtíðarinnar.