Járningameistarinn Jonathan Nunn kynnti hreyfigreiningarbúnað

Þann 24. ágúst sl. var járningameistarinn Jonathan Nunn með kynningu í Háskólanum á Hólum á nýjum tæknibúnaði frá hollenska járningavöruframleiðandanum Werkman Hoofcare. Búnaðurinn, sem kallast Werkman Black, er notaður við hreyfigreiningu hesta með sérstaka áherslu á hreyfingar hófsins og áhrif járninga á þær.
Búnaðurinn byggir á IMU hreyfinemum sem settir eru á framan á hvern hóf og mæla þeir hraða og stefnur af mikilli nákvæmni (1140 HZ) sem er grunnurinn að því að hægt er fá margfalt nákvæmari mælingar en mannsaugað greinir. Sérhæfður hugbúnaður skilar svo hlutlægum mælinganiðurstöðum þar sem hægt er að skoða þrívíddarhreyfingar hófsins frá ýmsum sjónarhornum. Athygli vakti hvað búnaðurinn er einfaldur í allri notkun og gefur niðurstöður á stuttum tíma með skýrum og lýsandi hætti. Vonandi er þess ekki langt að bíða að þessi tæknibúnaður verði tekin til notkunar hérlendis við þróun og framfarir í járningum á Íslenska hestinum.
Það voru Járningamannafélag Íslands og umboðsaðili Werkman á Íslandi, O.Johnson og Kaaber, sem stóðu fyrir kynningunni fyrir starfsmenn skólans og starfandi járningamenn og dýralækna á Norðurlandi.

Vikingur Gunnarson tók saman.