Staðarlotur hjá nemendum í ferðamálafræði

Nemendur og kennari við göngustígagerð fyrir framan Nýjabæ.
Nemendur og kennari við göngustígagerð fyrir framan Nýjabæ.

Vikuna 10. - 14. maí var staðbundin lota í tveimur námskeiðum í Ferðamáladeild.
Þátttaka í lotunni er mikilvægur liður í náminu og eitt af skilyrðunum fyrir að hljóta landvarðarréttindi sem veitt eru af Umhverfisstofnun.
Í námskeiðinu Gönguferðir, leiðsögn og stígagerð unnu nemendurnir að viðhaldi göngustíga í Hólaskógi auk stígsins upp í Gvendarskál. Ásamt göngustígagerðinni æfðu nemendurnir sig í að skipuleggja gönguferð með náttúrutúlkun.
Þessi vinna við stígagerðina væri ekki möguleg nema með þeirri miklu vinnu sem heimamenn á Hólum leggja í grisjun skógarins og eins með því að nýta efniviðinn sem þannig verður til. Þannig er hægt að viðhalda því góða stígakerfi sem þegar er til staðar.
Þess má einnig geta að nemendur í 4. og 7. bekk Grunnskólans austan Vatna unnu að viðhaldi göngustígs ofan við grunnskólann, en hann lögðu einmitt nemendur í Ferðamáladeild árið 2006. Samstarf hefur verið á milli skólanna um útikennslu og mun það verkefni halda áfram þar sem það er styrkt af Sprotasjóði.
Hinn hluti staðbundnu lotunnar var liður í námskeiðinu Náttúra Íslands og byggðist hann á náttúruskoðunarferð um Skagafjörð og verkefnavinnu í tengslum við hana.