Styrkur til ferskvatnsrannsókna í Færeyskum vötnum - FISHFAR

Nýtt verkefni, FISHFAR fékk á dögunum 18 milljóna króna styrk frá Granskingarráðinu (Rannsóknarráði Færeyja) til rannsókna á lífríki í völdum vötnum í Færeyjum. Camille Leblanc, dósent hjá Fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum leiðir verkefnið fyrir hönd háskólans, hún leiddi einnig umsóknarferlið í samvinnu við Sögusafn Færeyja, Náttúruminjasafn Íslands og Kaupmannahafnarháskóla.
Til verkefnisins verða ráðnir tveir MSc nemar, annar þeirra mun hafa aðsetur við Háskólann á Hólum og starfa undir handleiðslu Agnesar Keru Kreiling, Camille Leblanc og Bjarna K. Kristjánssonar. Hinn MSc neminn mun hafa aðsetur í Danmörku og starfa undir leiðsögn Kirsten S. Christoffersen.
FISHFAR verkefnið er sprottið af áhuga á að byggja ofan á rannsóknir sem gerðar voru fyrir 20 árum á ferskvatnsvistkerfum í Færeyjum og áhuganum til að þróa staðbundna sérfræðiþekkingu, ásamt því að skapa samstarf við Sögusafn Færeyja og fleirum sem að þessu verkefni koma.