Ný vísindagrein í Physiological Reports um áhrif holdafars á efnaskipti, afköst og jafnvægi á gangi í íslenskum hestum

Hestarnir fóru í þjálfunarpróf á hlaupabretti
Hestarnir fóru í þjálfunarpróf á hlaupabretti

Nýverið birti vísindatímaritið Physiological Reports grein um áhrif holdafars á efnaskipti, afköst og jafnvægi á gangi í íslenskum hestum

Vísindagreinin er afurð samstarfs vísindamanna við Háskólann á Hólum og sænska landbúnaðarháskólans í Uppsölum í Svíþjóð (SLU). Hún byggir á rannsóknum í meistaranámi Einars Ásgeirssonar, Tönju Rúnar Jóhannsdóttur og Carlottu Liedberg. Anna Jansson var aðalleiðbeinandi nemendanna.

Markmið rannsóknarinnar var að meta áhrif holdastigs og magns líkamsfitu á efnaskiptasvörun og lífeðlisfræðilega svörun við þjálfun hjá reiðhestum. Rannsóknin fór fram á Hólum á tímabilinu 20.mars-2.júní 2016. Notaðir voru 9 geldingar (6-8 vetra) sem voru við byrjun rannsóknarinnar að meðaltali 401 kg (± 17 kg) og í holdastiginu 6-6,6 á Henneke skalanum. Það holdastig er svipað og 3,5-3,75 á íslenska skalanum, sem þýðir ríf reiðhestshold til frekar feitir.
Notaðar voru tvær fóðurmeðferðir (mikil fóðrun og lítil fóðrun) –sjá neðar nánari lýsingu á uppsetningu rannsóknarinnar.

Nokkrar niðurstöður eftir meðferðum (mikil fóðrun og lítil fóðrun):

Það sem er rétt að vekja sérstaka athygli á, að hestarnir voru í meira en reiðhestsholdum (á íslenska skalnum 3+ eða meira) eftir báðar fóðurmeðferðirnar, þannig að þeir voru í öllum tilfellum með nokkurn fituforða en mismikinn. Eftir miklu fóðrunina var hópurinn hins vegar óþarflega feitur af reiðhestum að vera og það komu fram neikvæð áhrif af umframfitunni og umframþyngdinni hjá þeim hópi á efnaskiptalega þætti og frammistöðu í þjálfunarprófum sem voru gerð. Munurinn á líkamsþunganum eftir meðferðirnar tvær var hins vegar ekki nema um 20 kg, sem var umframþyngd sem gerði hestunum erfiðara fyrir í þeim þjálfunarprófum sem þeir voru settir í, þeir þurftu að erfiða meira og efnaskiptin voru óhagstæðari.

Samantekið sýndu niðurstöðurnar að aukin umfram-líkamsþyngd (um 20 kg) hafði neikvæð áhrif á hæfileika t.d. lægri einkunnir í kynbótadómi, lengdi endurheimt eftir þjálfun og jók ójafnvægi á gangi, það er ójafnari hreyfingar í heltiprófi. Rétt er þó að ítreka sérstaklega að allir hestarnir voru í hærra holdastigi en reiðhestsholdum, þannig að enginn hesturinn var undir reiðhestsholdum eða grannur.

Nánar um hvernig rannsóknin var gerð:
Uppsetning á rannsókninni var svokölluð skiptitilraun með tveimur fóðurmeðferðum. Meðferð 1: lítil fóðurgjöf (ca. 4,5 kg rúlluhey eða um 2,2 Feh/dag) og meðferð 2: mikil fóðurgjöf (ca. 9,5 kg rúlluhey eða um 4,4 Feh/dag). Hestunum var skipt í tvo hópa (A og B), þannig fór A hópur fyrst í gegnum meðferð 1 (36 daga) og hópur B í gegnum meðferð 2 (sömu 36 daga), og síðan skiptu hóparnir um meðferðir, hópur A fór í meðferð 2 og hópur B í meðferð 1 (aftur stóðu meðferðirnar í 36 daga). Þjálfunin á hverjum hesti var hin sama í báðum meðferðum (tímabilum). Í lok hvorrar meðferðar / hvers 36 daga tímabils, fóru hestarnir í gegnum þjálfunarpróf, bæði á hlaupabretti og úti á velli (kynbótasýning). Það sem var sérstakt við þessa rannsókn var að allir hestarnir fóru í gegnum báðar fóður-meðferðirnar, þannig að það var í raun hægt að bera hestana saman við sjálfa sig, það er hvernig þeir komu útúr hvorri meðferð.

Hér er slóð á vísindagreinina sem er í opnum aðgangi  
https://physoc.onlinelibrary.wiley.com/doi/pdfdirect/10.14814/phy2.14824