Meistaravörn Rögnu Guðrúnar Snorradóttur

Ragna Guðrún Snorradóttir (mynd í einkaeigu).
Ragna Guðrún Snorradóttir (mynd í einkaeigu).

Mánudaginn, 22. maí varði Ragna Guðrún Snorradóttir meistaranemi hjá Fiskeldis- og fiskalíffræðideild meistararitgerðina sína „Relationships between phenotype, diet, and individual specialization of threespine stickleback (Gasterosteus aculeatus) in Lake Mývatn, Iceland“. Ragna rannsakaði samspil fæðu og fæðusérhæfingu einstaklinga við svipgerð hornsíla í Mývatni. Einnnig reyndi hún að sjá hvort að hornsíli frá ólíkum svæðum í vatninu væru ólík þegar kemur að þessum þremur þáttum og samspili þeirra. Niðurstöðurnar sýndu að töluverður breytileiki var innan vatnsins þegar kemur að þessum þremur þáttum og að greinilegur munur var á milli svæða. Einnig sá Ragna að tengsl voru milli fæðu og útlits fiskanna þegar horft var til tálknatinda, en þeir eru beingaddar á tálknbogum sem aðstoða við fæðunám. Rannsókn Rögnu er hluti af langtímavöktun hornsílastofna Mývatns og leggur hún grunn að áframhaldandi fæðurannsóknum þeirra. Ragna stóðst vörnina með glæsibrag og hún mun útskrifast frá háskólanum þann 9. júní n.k.

Vörnin fór fram í Verinu, aðstöðu Fiskeldis- og fiskalíffræðideildar, auk þess að vera streymd.
Leiðbeinandi Rögnu var Dr. Bjarni Kristófer Kristjánsson. Í meistaraprófsnefnd voru Dr. Kasha Stickland og Dr. Joseph Philips. Prófdómari var Dr. Filipa Samarra og vörn stýrði Dr. Stefán Óli Steingrímsson deildarstjóri Fiskeldis- og fiskalíffræðideildar Háskólans á Hólum.