Öflugt rannsóknarstarf í gangi hjá háskólanum

Þann 5. maí síðastliðinn var hinn árlegi rannsóknadagur Háskólans á Hólum haldinn. Þann dag koma akademískir starfsmenn saman og kynna rannsóknir sínar. Dagskráin hófst á því að starfsmenn Byggðastofnunar, þau Sigríður Þorgrímsdóttir og Reinhard Reynisson kynntu tvo rannsóknasjóði sem stofnunin heldur utan um. Þessir sjóðir eru Norræna Atlantshafssamstarfið (NORA) og Norðurslóðaáætlunin (NPA). Þar á eftir kynntu deildirnar þrjár nokkur rannsóknaverkefni sem eru í gangi eða eru að fara af stað.
Markmið rannsóknadagsins er að hvetja til umræðu og samtals akademískra starfsmanna þvert á deildir um rannsóknir og gera akademíska starfsmenn meðvitaða um þá fjölbreytni sem finna má í rannsóknaflóru Háskólans á Hólum. Einnig er markmiðið að vekja athygli á þeim sjóðum sem veita styrki til rannsóknaverkefna. Nokkrar af rannsóknunum sem eru í gangi voru kynntar

Hjá Fiskeldis- og fiskalíffræðideild eru nokkrar rannsóknir í gangi. Ein þeirra, „Dægursveiflur í virkni bleikjuseiða í ám í Skagafirði.“  vinnur Stefán Óli Steingrímsson deildarstjóri fiskeldisdeildar að. Alessandra Schnider sagði frá rannsókn á þróun hornsíla í Mývatni og Grant Haines sagði frá rannsókn sinni á bleikjum sem lifa í fjölmörgum vatnfylltum hraunhellum við Mývatn.

Ingibjörg Sigurðardóttir deildarstjóri ferðamáladeildar sagði í örstuttu máli frá rannsóknum deildarinnar en nokkrir starfsmenn kynntu sínar rannsóknir. Meðal þeirra rannsókna sem kynntar voru er rannsókn Laufeyar Haraldsdóttur „Ábyrg eyjaferðamennska - áhrif ferðamennsku á lítil eyjasamfélög.“ Kjartan Bollason sagði frá sinni rannsókn „Vistvæn myrkurgæði - að njóta án ljósa...nema norðurljósa.“ Guðný Zoéga sagði frá rannsókn sinni „Fornleifar og minjar í Hjaltadal.“ Christian Klopch, doktorsnemi kynnti rannsókn sína „The effect of long-term grazing exclusion on carbon dynamics in Icelandic grasslands“ sem hann er að vinna að ásamt leiðbeinenda sínum Önnu Guðrúnu Þórhallsdóttur prófessor. Auk þess sem fleiri áhugaverðar rannsóknir eru í gangi hjá starfsmönnum deildarinnar.

Guðrún Stefánsdóttir var með stutta kynningu á helstu rannsóknum sem eru í gangi í Hestafræðideildinni þar sem áhersla hefur verið á þjálfunarlífeðlisfræði og hreyfingafræði. Í rannsóknunum hafa verið mæld áhrif af þyngd knapa á líkamlegt álag hjá hestum og gerðar hafa verið hlutlægar mælingar á skrefbreytum gangtegunda íslenska hestsins.