Fiskeldis- og fiskalíffræðideild virkur þátttakandi á Vistís ráðstefnunni

Um síðast liðna helgi fór hluti starfsfólks og nemenda úr fiskeldis- og fiskalíffræðideild skólans á ráðstefnuna Vistís sem er ráðstefna á vegum Vistfræðifélags Íslands, ráðstefnan var haldin að þessu sinni á Hótel Laugarbakka í Miðfirði.

Að sögn þá voru þátttakendur ráðstefnunnar með breiðan fræðigrunn, svo sem fuglafræðingar, plöntuvistfræðingar, líffræðingar o.fl. og er óhætt að fullyrða að umræður sem sköpuðust á staðnum voru mjög fjölbreyttar og áhugaverðar. Vistís er einnig góður vettvangur til að hittast, mynda ný tengsl og til að taka umræðuna en einnig til að sýna hvaða verkefni eru í gangi hjá hverjum og einum.

Nemendur og starfsfólk deildarinnar voru mjög sýnileg á ráðstefnunni og til gamans má geta að veitt voru verðlaun í 1. - 3. sæti, fyrir fyrirlestra og þar átti Háskólinn á Hólum tvo fulltrúa sem er frábær árangur. Alessandra Schnider var í öðru sæti með fyrirlesturinn sinn sem bar heitið „Juvenile feeding ecology in threespine stickleback“. Í þriðja sæti var Gabrielle Ladurée með fyrirlesturinn sinn sem bar heitið „Influence of habitat complexity on stream-dwelling Arctic charr space use – does personality matter?“.
Ráðstefnunni lauk á laugardagskvöldinu þar sem þáttakendur hittust yfir sameiginlegum kvöldverði á veitingastaðnum Sjávarborg á Hvammstanga.