Fjögur fá framgang í starfi

Fjórir akademískir starfsmenn Háskólans á Hólum(HH) hafa nú hlotið framgang í starfi að undangengnu ítarlegu mati dómnefndar á vegum Háskóla Íslands. Fulltrúi HH átti sæti í dómnefndinni en rektor HH veitir framgang.

Markmið framgangskerfis opinberra háskóla er að hvetja akademíska starfsmenn til virkni og árangurs í starfi og auka þannig gæði kennslu og rannsókna innan skólans. Mat á framgangi byggir á heildstæðu faglegu mati á frammistöðu og árangri í rannsóknum, kennslu, stjórnun og þjónustu í þágu Háskólans á Hólum og samfélagsins.

Það að svo margir starfsmenn skólans hljóti framgang að þessu sinni, ber vitni um hið öfluga rannsóknastarf og metnaðarfullu kennslu sem fram fer við skólann.

Starfsheiti akademískra starfsmanna eru aðjunkt, lektor, dósent og prófessor en eftirtaldir starfsmenn hljóta framgang í starfi að þessu sinni:

Sveinn Ragnarsson í starf prófessors við Hestafræðideild
Guðný Zoëga í starf dósents við Ferðamáladeild
Ingibjörg Sigurðardóttir í starf dósents við Ferðamáladeild
Jessica Faustini Aquino í starf dósents við Ferðamáladeild

Háskólinn á Hólum óskar fjórmenningunum innilega til hamingju með árangurinn.