Forsvarsfólk helstu fiskeldisfyrirtækja landsins heimsótti Hóla

Forsvarsfólk helstu fiskeldisfyrirtækja landsins heimsótti Hóla á dögunum til þess að taka þátt í vinnustofu um verknám í fiskeldi. Vinnustofan var liður í norræna samstarfsverkefninu BRIDGES sem hefur það meðal annars að markmiði að efla samstarf skóla og iðnaðar. Hópurinn, ásamt akademísku starfsfólki fiskeldis- og fiskalíffræðideildarinnar og fulltrúum frá Háskólanum á Akureyri og Fisktækniskóla Íslands, kom saman til kvöldverðar og samveru á fimmtudagskvöldi en vinnustofan sjálf var svo haldin á föstudeginum. Hólmfríður Sveinsdóttir rektor kynnti það helsta sem er fram undan í starfi skólans og fulltrúar frá deildinni kynntu sig, starf deildarinnar, námsleiðir og námskeið. Að því loknu var fjallað um móttöku verknema í fyrirtækjum og hlutverk móttökuaðila og leiðbeinenda. Að lokum unnu þátttakendur saman í umræðuhópum og niðurstöður umræðna verða nýttar við gerð handbókar um verknám. Eitt af verkefnum skólans í BRIDGES verkefninu er að vinna að umbótaverkefnum innan deildarinnar og meðal þess sem unnið er að er að endurskoða verknámið og verkferla í kringum það. Vinnustofan var árangursrík og héldu gestir og gestgjafar heim bjartsýnir á áframhaldandi samstarf.