Karfan er tóm.
- Háskólinn
- Starfsfólk
- Inspera
- Nám
- Ferðamáladeild
- Fiskeldis- og fiskalíffræðideild
- Hestafræðideild
- Hagnýtar upplýsingar
- Rannsóknir
- Vefverslun
Karfan er tóm.
Háskólinn á Hólum býður Dr. Eriku Berg hjartanlega velkomna, en hún er Fulbright-styrkþegi frá Bandaríkjunum og dósent í dýrafræði við North Dakota State University. Erika mun starfa við hestafræðideildina frá janúar til júní 2026.
Erika kemur til Íslands í gegnum Fulbright-áætlunina á Íslandi og mun vinna náið með Sveini Ragnarssyni, prófessor í hestafræði, og Henri Julius, tengdum prófessor, við Háskólann á Hólum að þróun nýrrar akademískrar námskrár á sviði dýratengdrar þjónustu (Animal Assisted Services). Þetta vaxandi fræðasvið nær meðal annars yfir hestatengda fræðslu, íhlutanir og meðferðarstarf sem styður við líkamlega, andlega og námslega vellíðan fólks.
Á meðan á dvöl hennar stendur á Hólum mun Erika taka þátt í kennslu og námskrárþróun. Meginhlutverk hennar verður að hanna nýja námsleið þar sem stuðst er við dýr í starfi með fólki og tryggja að námskráin uppfylli alþjóðleg viðmið og endurspegli bestu starfshætti sem þróaðir hafa verið bæði í Bandaríkjunum og á Norðurlöndum. Auk þess mun hún kenna valnámskeið um hvernig má styðjast við hesta í starfi með fólki og leiðbeina nemendum við rannsóknir á sviði samskipta manna og hesta.
Heimsóknin markar mikilvægt skref fyrir Háskólann á Hólum, sem undirbýr nú að efla og víkka út námsframboð sitt á sviði dýratengdrar þjónustu. Þóttslík meðferðarstarfsemi hafi verið stunduð á Íslandi um nokkurt skeið, er vaxandi þörf fyrir viðurkennt nám á þessu sviði. Erika býr yfir 30 ára reynslu af því að tengja saman hesta og fólk í bæði samfélags- og menntunarstarfi. Hún er forstöðumaður Bison Strides, hestatengdrar þjónustu sem þjónar einstaklingum með líkamlegar, vitsmunalegar og geðrænar áskoranir við heimaháskóla hennar, þar sem hún hefur einnig umsjón með námsleið fyrir grunnnema sem stefna að vottun í kennslu hestatengdrar meðferðar.
Samstarfið skapar verðmæt tækifæri til langtímasamvinnu milli íslenskra og bandarískra stofnana. Háskólinn sér fyrir sér að þessi Fulbright-dvöl geti orðið grunnur að áframhaldandi fræðilegum samskiptum og framtíðarsamstarfi á sviði rannsókna í hestatengdri þjónustu.
Við hlökkum til samstarfsins við Eriku og bjóðum hana hjartanlega velkomna í háskólasamfélagið og nærsamfélagið á Hólum.