Fyrirlestraröð ferðamáladeildar - Áfangastaðir

"Áfangastaðir" – erindi í fyrirlestraröðinni Vísindi og grautur verður á vegum Ferðamáladeildar Háskólans á Hólum.

Þriðjudaginn 5. apríl, kl. 11.00 – 12.00. Fyrirlesturinn fer fram á zoom og eru allir hjartanlega velkomnir: https://eu01web.zoom.us/j/62121902246

Að þessu sinni flytja Gunnar Þór Jóhannesson og Katrín Anna Lund frá Háskóla Íslands erindi um áfangastaði. Í erindinu verður dregin upp óhefðbundin mynd af því hvernig áfangastaðir verða til og þróast. Bent er á nýjar leiðir til að nálgast og veita innsýn í margbreytileika ferðamennskunnar og áfangastaða ferðamanna.

Gunnar Þór Jóhannesson er prófessor í ferðamálafræði við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Meginrannsóknaráherslur Gunnars eru mótun áfangastaða, skipulag og stefnumótun í ferðaþjónustu og nýsköpun og frumkvöðlastarf í ferðaþjónustu. Hann hefur birt rannsóknir sínar í fræðitímaritum og bókum hérlendis og erlendis.

Katrín Anna Lund er prófessor í ferðamálafræði við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Fræðilegar áherslur rannsókna hennar hafa beinst að fyrirbærafræði landslags, hreyfanleika, skynjun og frásögnum með áherslu á ferðamennsku í víðum skilningi. Katrín hefur gefið út fjölda ritrýndra greina og kafla í ritum og bókum hérlendis og erlendis.