Góður árangur okkar fólks

Guðmar Freyr Magnússon og Mette Mannseth. Mynd: Hestamannafélagið Skagfirðingur.
Guðmar Freyr Magnússon og Mette Mannseth. Mynd: Hestamannafélagið Skagfirðingur.

Við getum verið stolt af okkar fólki, um sl.helgi fór fram árshátíð Hestamannafélagsins Skagfirðings og voru tveir kennarar skólans Mette Mannseth og Sigurður Heiðar Birgisson tilnefndir til verðlauna.
Mette Mannseth hlaut titilinn íþróttaknapi Skagfirðings. Mette sigraði í fimmgangi, tölti, fjórgangi og slaktaumatölti á WR Hólamótinu í vor, reið A-úrslit í slaktaumatölti á Landsmóti Hestamanna, var þriðja í einstaklingskeppni Meistaradeildar Líflands og sigraði í fjórum greinum í Meistaradeild KS ásamt því að sigra í einstaklingskeppninni.
Sigurður Heiðar Birgisson var tilnefndur sem skeiðknapi ársins. Sigurður og Hrina frá Hólum áttu mjög gott keppnisár á sínu fyrsta tímabili saman en þau enduðu í 2.sæti á Íslandsmóti í 150 m skeiði, 2.sæti í 150 m skeiði á WR Hólamótinu, 2.sæti á skeiðleikum Skagfirðings í 100 m skeiði og 150 m skeiði ásamt því að vera í efstu tíu sætum á Íslandsmóti í 100 m skeiði.

Guðmar Freyr Magnússon nemandi á þriðja ári við hestafræðideild Háskólans á Hólum var knapi ársins hjá hestamannafélaginu en hann átti góðu gengi að fagna á keppnisvellinum á sínu fyrsta keppnisári í meistaraflokki meðal annars endaði hann í 2-3. sæti í gæðingaskeiði, reið B-úrslit í fimmgangi á Íslandsmóti og í A-flokki á Landsmóti Hestamanna. Einnig náði hann góðum árangri á WR Hólamóti UMSS og Skagfirðings. Sjá nánar á vef hestamannafélagsins Skagfirðings

Við óskum þeim, öðrum titilhöfum og tilnefndum til hamingju með árangurinn!!