Háskólinn á Hólum á Arctic Circle

Dagana 16. – 18. október sl. var Arctic Circle ráðstefnan haldin í Hörpu í Reykjavík. Á hverju ári mæta bæði innlendir og erlendir aðilar til að ræða málefni Norðurslóða í fjölmörgum málstofum og pallborði.

Háskólinn á Hólum tók þátt í einni málstofu sem fór fram föstudaginn 17. október. Yfirskrift hennar var Serious Games – A tool for co-creation and knowledge creation in the Arctic. Í málstofunni var farið yfir hvernig hægt sé að nota tölvuleiki og/eða borðleiki til þess að vinna með málefni Norðurslóða, s.s loftslagsbreytingar. Skipuleggjendur málstofunnar, auk Háskólans á Hólum, voru Háskóli Íslands, Háskólinn í Umeå, Jamstec sem er sjávarrannsóknarstofnun í Japan og Touch TD í Bretlandi.

Serious games verkefnið spratt upp úr ArcticHubs verkefninu sem lauk í fyrra en Háskólinn á Hólum tók þátt í því og að auki tengir verkefnið við nýja Horizon verkefnið, ArcticKnows, sem hófst núna í október en Háskólinn á Hólum er þátttakandi í því verkefni. Fyrir hönd Háskólans á Hólum tekur Anna Guðrún Edvardsdóttir þátt í þessum verkefnum og kom að skipulagningu málstofunnar fyrir hönd skólans.